Samdráttur í útflutningi frá Færeyjum

Deila:

Útflutningur fiskafurða frá Færeyjum hefur dregist umtalsvert saman á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs borið saman við sama tíma í fyrra. Samdráttur í magni er 20% og 16% í verðmæti.

Mestu munar um minni útflutning á makríl, en einnig hefur sala á laxi dregist saman. Samtals fóru nú utan ríflega 134.200 tonn, sem er tæplega 32.700 tonnum minna en í fyrra. Útflutningur botnfiskafurða hefur þó vaxið verulega. Nú fóru utan 16.134 tonn, sem er 2.320 tonnum meira en í fyrra, aukning um 17%.

Allt aðra sögu er að segja af uppsjávarfiskinum og þá helst makríl. Útflutningur fyrstu fjóra mánuðina nú er aðeins 53.023 tonn sem er fall um 27.350 tonn eða 34%. Útflutningur á laxi nú var 18.815 tonn, sem er 1.466 tonnum minna en í fyrra eða samdráttur um 7%. Af öðrum fiskitegundum voru nú flutt utan 17.169 tonn. Það er samdráttur um 4.323 tonn, eða 20%. Loks ber að nefna mjöl og lýsi. Af þeim afurðum fóru utan 29.073 tonn, sem er lækkun um 1.852 tonn, sem er samdráttur um 6%.

Þegar litið er á verðmætin eru hlutfallslegar breytingar frá fyrra ári svipaðar og í magninu. Heildarverðmætið var um 40,5 milljarðar íslenskra króna, sem er samdráttur um 16%. Verðmæti útfluttra botnfiskafurða jókst um 22% og nam samtals ríflega 8 milljörðum króna. Verðmæti afurða úr uppsjávarfiski var 5,3 milljarðar og dróst saman um 54%. Loks var verðmæti útflutts eldislax um 18 milljarðar króna. Það er samdráttur um 14%.

Útflutningur á öðrum fisktegundum dróst samann um 22% mælt í verðmætum, en verðmæti fiskimjöls og lýsi ókst um 34%.

Deila: