Meiri afli á færri báta

Deila:

Afli strandveiðibáta í júní, eftir 12 veiðidaga, var 1.950 tonn, sem er 75 tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Afli á bát að meðaltali er um 4 tonn, sem er hálfu tonni meira en í fyrra. Meðalafli á bát í róðri er nú 647 kíló, sem er alveg við hámarkið.

Á svæði A er aflinn það sem af er júní 867 tonn, sem er um 60 tonnum minna en á sama tíma í fyrra. Afli á bát er að meðaltali 4,6 tonn í í fyrra var meðalaflinn 4,3 tonn. Afli að meðaltali í róðri er 669 kíló, sem er 9 kílóum undir meðaltalinu í fyrra. 189 bátar hafa stundað veiðarnar nú, en 215 í fyrra.

Afli á svæði B í júní 320 tonn, sem er 7 tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Fjöldi báta sem hafa róið í mánuðinum er 90, en í fyrra voru bátarnir 117. Meðalafli á bát er því 3,5 tonn nú á móti 2,7 tonnum í fyrra. Afli í róðri er nú að meðaltali 606 kíló en var í fyrra 517 kíló.

Á svæði C hafa 90 bátar verið á veiðum í júní, en það er fækkun um 12 frá fyrra ári. Heildaraflinn er orðinn 317 tonn, sem er aukning um 48 tonn. Meðalafli á bát er 3,5 tonn, sem er 900 kílóum meira en í fyrra. Meðalafli í róðri er 642 kíló, sem er meira en 100 kílóum meira en þá.

Á svæði D hafa 113 bátar stundað veiðarnar sem er 11 fleiri en í fyrra. Aflinn nú er 446 tonn, sem er ríflega 80 tonnum meira en þá. Afli á bát er nú að meðaltali 3,9 tonn, sem er 400 kílóum meira en árið áður. Sömuleiðis er afli í róðri nú heldur meiri eða 640 kíló á móti 590 þá.

Deila: