Mikill uppgangur hjá Matorku

Deila:

Fiskeldisfyrirtækið Matorka er nú að vinna í stækkunarferli í nýrri fiskeldisstöð sinni við Grindavík. „Við erum með leyfi til að ala 3.000 tonn á ári af laxfiskum í Grindavík. Með þeim framkvæmdum sem við erum í núna náum við upp í þá framleiðslugetu. Þessi framkvæmd er öll fjármögnuð með hlutafé og við sjáum fram á að ljúka framkvæmdum næsta vor.“ Segir Árni Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Matorku.

„Við erum búnir að vera að slátra og selja bleiku úr nýju stöðinni frá því í ágúst 2017. Það hefur gengið vonum framar, verðin eru góð og gæðin eru mikil og hafa komið viðskiptavinum á óvart. Þeir eru allir mjög ánægðir með vöruna. Bæði hér heima og beggja vegna Atlantshafsála. Þar sem bleikjan er alin á landi með umhverfisvænum aðferðum, er gífurlega mikill áhugi fyrir henni af þeim sökum, en svo er þetta bara líka einn besti matfiskur sem til er svo eðlilega er mikill áhugi fyrir henni. Fyrir vikið höldum við ótrauðir áfram með stækkunina.

Sjálfbærar aðferðir

Við eru mjög spenntir fyrir þessum geira þar sem verið er að ala laxfiska með sjálfbærum aðferðum þar sem umhverfismálin eru sett í fyrsta sæti. Við erum eingöngu í bleikju núna en höfum hugsað okkur að fara í laxinn líka og verið að gera tilraunir í þá veru, en við munum ekkert byrja með lax í slátrun fyrr en í frysta lagi 2019 eða 2020,“ segir Árni Páll.

Gamla eldisstöðin að Húsatóftum er hlut af eldinu en þar er Matorka með alls konar aðstöðu fyrir smáfisk innanhúss á meðan áframeldið er allt í stóru stöðinni fyrir ofan veg. Seiðastöð Matorku er svo austur í Landssveit, þar sem góðar aðstæður eru fyrir það.

Þúsund tonn á þessu ári

Á þessu ári verður framleiðslan hátt í 1.000 tonn og á næsta ári verður hún komin í 2.000 tonn og árið 2020 verður hún að öllu óbreyttu 3.000 tonn. „Samherji er enn stærsti bleikjuframleiðandi í heimi en vonandi verðum við á einhverjum tímapunkti jafnstórir þeim,“ segir Árni Páll.

„Staðsetningin í Grindavík er mjög góð. Þar er mjög gott vatn og möguleiki á jarðhita. Þá erum við bæði nálægt höfuðborgarsvæðinu og Keflavíkurflugvelli. Svo erum við með okkar eigin vinnslu á bleikjunni í Grindavík þar sem hún er unnin til sölu á heilum slægðum fiski og beinhreinsuðum flökum, bæði fryst og ferskt. Þessar afurðir fara utan í tuga tonna tali í hverri viku.“

Deila: