Stefnir í lélegustu humarvertíð sögunnar

Deila:

Nú stefnir í lélegustu humarvertíð sögunnar. Aflinn það sem af er fiskveiðiárinu er aðeins ríflega 172 tonn miðað við slitinn humar. Það þýðir að óveidd eru tæplega 295 tonn af leyfilegum heildarafla, 467 tonnum, og útilokað er að sá afli náist á ríflega tveimur mánuðum sem eftir standa af fiskveiðiárinu.

Svipaður gangur hefur verið á síðustu vertíðum. Kvótinn hefur ekki náðst og þær heimildir sem eftir standa færast yfir á næsta ár og það sem eftir stendur óveitt verður stöðugt meira. Nýliðun í humarstofninum hefur að mestu brugðist undanfarin ár og því hefur Hafrannsóknastofnun lagt til minni leyfilegan afla ár frá ári og er ráðlagður afli nú sá minnsti síðan veiðar hófust fyrir um 60 árum.

Sé litið þrjú ár aftur í tímann, fiskveiðiárið 2015/2017, var úthlutaður kvóti 437 tonn, sérstakar úthlutanir 25 tonn og flutningur milli ára var 98 tonn. Leyfilegur heildarafli það ár var því 559 tonn. Aflinn varð 470 tonn og eftir stóðu óveidd 89 tonn. 13 bátar stunduðu veiðar þá og var Jón á Hofi ÁR aflahæstur með 73,7 tonn. Næsti bátur var Þórir SF með 69,7 tonn og sá þriðji var Þinganes ÁR með 63 tonn.

Fiskveiðiárið 2017/2017 var úthlutaður kvóti 379 tonn. Sérstakar úthlutanir 21 tonn og milli ára voru flutt 89 tonn. Leyfilegur heildarafli var því 489 tonn. Aflinn varð 363 tonn og eftir stóðu 126 tonn óveidd. 10 bátar stunduðu veiðarnar og nú varð Þórir SF aflahæstur með 61 tonn. Þinganes ÁR kom næst með 55,8 tonn og í þriðja sætinu varð Fróði ÁR með 55,3 tonn.

Á þessu fiskveiðiári er úthlutaður kvóti 335 tonn, sérstakar úthlutanir 18,8 tonn og frá síðasta fiskveiðiári hafa verið flutt 113 tonn. Leyfilegur heildarafli er því 467 tonn og eins og áður sagði er aflinn nú um 172 tonn. 295 tonn óveidd og líklegt að eftirstöðvar í ár verði ekki minni en í fyrra.

Nú hafa 9 bátar stundað veiðar og er Jón á Hofi ÁR aflahæstur eins með 32 tonn. Næst er Þinganes ÁR með 28,6 og þá Skinney SF með 27,7 tonn.

 

Deila: