Eru að veiðum í Rósagarðinum
,,Það fengu tvö skip þokkalegasta kolmunnaafla í Rósagarðinum út af Suð-Austurlandi í gær og við ætlum að láta á það reyna hvort eitthvað framhald verður á veiðinni,“ segir Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK, en er rætt var við hann af heimasíðu HB Granda síðdegis í gær átti hann um tvo tíma ófarna á miðin.
Víkingur hefur verið að kolmunnaveiðum austarlega í Síldarsmugunni auk Venusar NS síðustu daga en Venus er nú á leið til Vopnafjarðar með tæplega 1.000 tonna afla.
,,Það hefur verið rólegt yfir veiðunum hjá okkur. Í gær vorum við með 150 tonn eftir langt hol og heildaraflinn hjá okkur er um 870 tonn í sex holum. Það var hins vegar líflegra hjá Berki NK og Bjarna Ólafssyni AK í Rósagarðinum í gær og ég hef heyrt að aflinn hafi farið upp í 330 tonn eftir daginn,“ segir Alberts en auk þessara tveggja skipa er nú Margrét EA komin á svæðið.
,,Það fer væntanlega bara eftir aflabrögðum hvort við verðum einn eða tvo daga að veiðum í Rósagarðinum. Makrílveiðar fara að hefjast og við urðum varir við makríl í kantinum á Stokksnesgrunni og þar austur úr á siglingunni í Síldarsmuguna. Þetta er hefðbundinn staður en mig minnir þó að í fyrra höfum við farið allt vestur að Vestmannaeyjum fyrstu daga makrílvertíðarinnar,“ segir Albert Sveinsson.