Kolmunna landað í Neskaupstað

Deila:
Börkur NK kom til hafnar í Neskaupstað í morgun með um 1.700 tonn af kolmunna. Aflinn fékkst austan við Þórsbankann. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri segir að framan af veiðiferðinni hafi verið þokkalegasta kropp en dregið hafi úr veiðinni og lítið fengist í gær.
„Við fengum þennan afla í sex holum, að meðaltali voru þetta um 300 tonn í holi og aðeins var tekið eitt hol á sólarhring. Í gær voru átta skip á þessum slóðum en þrjú fóru í land í nótt. Þau höfðu áður fengið afla í Smugunni og þurftu að fara til löndunar. Það er frábært að fá kolmunna innan lögsögunnar og vonandi verður framhald á veiði á þessum slóðum. Ég hef líka trú á því að það skapist fleiri möguleikar til kolmunnaveiða innan lögsögunnar síðar á árinu,“ segir Hjörvar í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Slegið var á þráðinn til Runólfs Runólfssonar skipstjóra á Bjarna Ólafssyni AK. Runólfur upplýsti að aflinn væri orðinn 1.400 tonn. „Það var lítið að hafa í gær og við leituðum í alla nótt. Síðan var kastað í morgun á Rauða torginu um 85 mílur frá Norðfjarðarhorni, en það er sannast sagna heldur lítið að sjá. Vonandi rætist samt úr þessu,“ segir Runólfur.
Beitir NK hélt til kolmunnaveiða í fyrrakvöld og hóf veiðar í gær. Skipið var í Norðfjarðarhöfn í vélarupptekt.
Deila: