Merkisdagur í sögu Síldarvinnslunnar

Deila:

Í gær var 17. júlí og það er merkisdagur í sögu Síldarvinnslunnar. Hinn 17. júlí árið 1958 eða fyrir réttum 60 árum var í fyrsta sinn tekið á móti hráefni til vinnslu í síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar. Þennan dag átti sér einnig stað hörmulegt banaslys í þróm verksmiðjunnar þegar ungur vélvirki, Þorsteinn Jónsson, fórst. Slysið skyggði svo sannarlega á þá gleði sem ríkti vegna tilkomu nýrrar síldarverksmiðju og þeirra þáttaskila sem voru að eiga sér stað í atvinnusögu Neskaupstaðar.

„Því miður er umrætt banaslys ekki hið eina í sögu Síldarvinnslunnar. Alls hafa 12 menn látist í starfi hjá fyrirtækinu á þeim 60 árum sem það hefur starfað. Þar af létust sjö í snjóflóðunum 20. desember 1974,“ segir í frétt frá Síldarvinnslunni. Síðdegis í gær var efnt til stuttrar samkomu í Safnahúsinu í Neskaupstað þar sem meðal annars voru kynntar hugmyndir um samkeppni um gerð minningarreits á grunni gömlu síldarverksmiðjunnar og verður reiturinn helgaður öllum þeim sem látið hafa lífið við störf hjá Síldarvinnslunni.

 

Deila: