Marel undirritar kaup á MAJA

Deila:

Marel hefur samþykkt að kaupa MAJA sem er þýskur framleiðendi matvinnslubúnaðar. Búist er við því að kaupin gangi formlega í gegn á þriðja ársfjórðungi 2018 að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum og að fengnu samþykki samkeppnisyfirvalda. Fyrirhuguð kaup eru í samræmi við þá stefnu Marel að vera leiðandi framleiðandi á háþróuðum heildarlausnum og stöðluðum búnaði fyrir öll stig vinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski, og að styrkja alþjóðlega markaðsstöðu.

MAJA

maja-logo

MAJA er í fararbroddi í vöruþróun og framleiðslu á búnaði fyrir matvælavinnslu, með megináherslu á kjötiðnað og klakavélar fyrir varðveislu og framsetningu á ýmsum matvælum. Fyrirtækið var stofnað árið 1955 og er staðsett í Kehl-Goldscheuer í Þýskalandi. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 200 talsins og árlegar tekjur MAJA nema um það bil 30 milljónum evra.

MAREL

Marel er leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúkling, kjöti og fiski. Hjá félaginu starfa um 5.500 manns í yfir 30 löndum, þar af um 650 á Íslandi. Marel velti yfir einum milljarði evra árið 2017 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu.

Framúrskarandi tækniþekking MAJA og sterk markaðsstaða falla vel að þeirri stefnu Marel að efla vöruþróun og tryggja sterka stöðu á alþjóðlegum mörkuðum. Kaupin á MAJA gera Marel betur í stakk búið til þess að bjóða upp á alhliða lausnir fyrir kjötvinnslu á heimsvísu og að sækja á nýja markaði. Marel hyggst einnig nýta nýsköpunargetu og hágæða framleiðsluaðstöðu MAJA til viðbótar við núverandi framleiðslustöðvar Marel. Stjórnendur MAJA munu áfram leiða fyrirtækið.

„Gott vöruframboð MAJA hentar Marel vel og við berum mikla virðingu fyrir þeirri tæknilegu þekkingu sem starfsmenn fyrirtækisins hafa byggt upp. Fyrirtækin þekkjast vel þar sem MAJA og Sulmaq, dótturfyrirtæki Marel í Brasilíu, hafa átt farsælt samstarf í Suður-Ameríku. Með sameiningunni og með því að nýta vöruframboð og markaðsstöðu MAJA aukum við sveigjanleika okkar til þess að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu og efla nýsköpun. Yfirtakan styrkir getu Marel til þess að ná framtíðar vaxtarmarkmiðum og skapa enn meiri verðmæti fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Árni Oddur Þórðarsson, forstjóri Marel.

„Í samvinnu við Marel og með hágæða vöruframboði okkar munum við geta skapað meiri verðmæti fyrir viðskiptavini okkar um allan heim, sem og fyrir samstarfsaðila og starfsmenn okkar, með alhliða og frábæru vöru- og þjónustuframboði. Saman munum við sinna enn mikilvægara hlutverki á alþjóðlegum mörkuðum fyrir kjötvinnslu- og klakavélar. Marel er að okkar mati mjög heppilegur kaupandi að félaginu, og með því að sameinast stærra fyrirtæki munu starfsmenn MAJA öðlast enn frekari tækifæri til starfsþróunar,“ segja Joachim Schill & Reinhard Schill, eigendur og. framkvæmdastjórar MAJA.

 

 

Deila: