71,5% veitt

Deila:

Nú, í upphafi síðasta veiðitímabils strandveiða  í sumar, er afli bátanna samtals 7.297 tonn. Það er um 71,5% af leyfilegum heildarafla á vertíðinni, sem er 10.200 tonn. Á sama tíma í fyrra var afli strandveiðibátanna 7.514 tonn.

Fyrstu þrjá mánuði strandveiðanna er afli langmestur á svæði A, 3.397 tonn, sem er aukning um 553 tonn frá sama tíma í fyrra. Skýringin liggur í því nú eru bátarnir fleiri en í fyrra og dagar á sjó sömuleiðis.

Á svæði B er heildaraflinn 1.277 tonn, sem er lækkun um 375 tonn. Færri bátar hafa róið í ár og dagar á sjó eru færri.

Heildarafli á svæði C er 1.330 tonn, sem er samdráttur um 446 tonn. Þar eru einnig færri bátar og færri róðar skýring samdráttarins.

Bátar af svæði D hafa landað 1.292 tonnum sem er aukning um 51 tonn. Bátar á þessu svæði eru nú fleiri en í fyrra, en róðrar færri.

Deila: