Smábátar fá viðbótarúthlutun í makríl

Deila:

Gefin hefur verið út reglugerð um ráðstöfun 2.000 tonna viðbótaraflaheimilda í makríl á árinu 2018 til smábáta.
Samkvæmt henni skal úthluta skal allt að 2.000 lestum af makríl gegn greiðslu gjalds, á árinu 2018 til skipa sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd og minni en 30 brúttótonn að stærð, sem stunda veiðar með línu og handfærum. Heimilt er að úthluta á skip, sem hafa veiðileyfi með aflamarki eða krókaaflamarki, allt að 35 lestum í senn.

Ekkert skip getur fengið úthlutað viðbótaraflaheimild fyrr en það hefur veitt 80% af úthlutuðum aflaheimildum sínum. Þessi takmörkun gildir ekki um skip sem ekki fengu úthlutun samkvæmt reglugerð og ekki um þau skip sem fengu minni úthlutun en 27 lestir.

Úthlutun viðbótaraflaheimilda samkvæmt þessari reglugerð er bundin því skilyrði að skip hafi veitt 80% af áður úthlutuðum viðbótaraflaheimildum. Aflaheimildir sem úthlutað er samkvæmt þessari reglugerð er óheimilt að framselja.

Heimilt er að flytja allt að 10% af úthlutuðum viðbótaraflaheimildum skips frá árinu 2018 til ársins 2019. Nýting aflaheimilda sem þannig eru fluttar milli ára er bundin því skilyrði að ráðherra heimili viðbótarúthlutun makríls vegna ársins 2019. Fiskistofa skal halda sérstaka skrá yfir viðbótaraflaheimildir sem fluttar eru milli ára skv. þessari grein.

Deila: