Tvöfalda framleiðslu á hrognkelsum

Deila:

Fyrirtækið Ocean Matters í Wales hefur nú í hyggju að tvöfalda eldi sitt á hrognkelsi eftir að hafa tryggt sér fjármögnun upp á eina milljón punda frá Bank of Wales og HSBC. Upphæðin svarar til um 140 milljóna íslenskra króna. Ætlunin er að auka eldið úr tveimur milljónum fiska í fjórar milljónir á ári.

Skýringin á þessari miklu aukningu er ört vaxandi eftirspurn eftir hrognkelsum til að éta lýs af skoskum eldislaxi.

Einn af stofnendum Ocean Matters segir að fyrirtækið hafi byrjað að útvega „hreinsifiska“ árið 2016 og starfsemin hafi gengið ljómandi vel. Þessi nýja fjárfesting muni liðka fyrir enn meiri vexti fyrirtækisins og geti þess til að svara meiri eftirspurn. Nú geti það orðið í fararbroddi þeirra sem bjóða upp á sjálfbærar, náttúrulegar lausnir við fjarlægingu laxalúsar.

Deila: