Svipaður grásleppuafli og í fyrra

Deila:

Grásleppuvertíðinni 2018 lauk sl. sunnudag þann 12. ágúst og hafði þá staðið yfir frá 20. mars. Alls 222 bátar stunduðu veiðar á vertíðinni sem er 28 bátum færra en árið 2017.  Vertíðin skilaði 4.486 tonnum, nánast sami afli og 2017 samkvæmt frétt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.

Taflan sýnir grásleppuafla [tonn] sl. 6 vertíða og fjölda báta.

Grásleppuvertíðin 2018

Aflinn á vertíðinni var um 8% lægri en meðaltal tilgreindra sex vertíða.

Vertíðin hófst að venju 20. mars og kvað reglugerð á um 44 veiðidaga sem hver bátur hafði heimild til að stunda veiðarnar.  Lengst af hafa dagar verið 32 en á vertíðinni 2017 voru þeir 46.

Við ákvörðun um fjölda daga var þess gætt að veiðin færi ekki umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar – 5.487 tonn.   Gert var ráð fyrir að fleiri mundu stunda veiðar þar sem skortur var á hrognum á markaðinn og því búist við verulegri verðhækkun.  Verð sem kaupendur buðu var hins vegar ekki nægilegt til að kveikja þann neista og áhuga sem þarf til að fjölgun verði.  Þvert á spár fækkaði bátum milli ára og þrátt fyrir góðan afla nægði það ekki til að veiða það sem áætlanir gerðu ráð fyrir.

Taflan sýnir afla og ráðgjöf [tonn] sl. 6 vertíða og hlutfall.

Grásleppuvertíðin 2018 2

Miðað við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er hægt að segja að góð veiði hafi komið á óvart þar sem ráðgjöfin nú var 14% lægri en fyrir vertíðina 2017.   Afli á nýlokinni vertíð var hins vegar víðast hvar ágætur og meðalafli á bát 20,2 tonn, eða 11% meira en í fyrra.

 

Deila: