Langar til Balí og siglingu í sól og hita

Deila:

Við fikrum okkur nú af Austfjörðunum og norður á Þórshöfn. Þar er Ísfélag Vestmannaeyja með umsvifamikla starfsstöð, sem einkum vinnur uppsjávarfisk, eins og makríl, en makrílvertíð stendur nú yfir. Maður vikunnar starfar þar sem verkstjóri og hefur unnið í fiski síðan 2012.

Nafn?

Jóhanna Herdís Eggertsdóttir.

Hvaðan ertu?

Fædd og uppalin á Akureyri.

Fjölskylduhagir?

Í sambúð með Ara Sigfúsi Úlfssyni.

Hvar starfar þú núna?

Verkstjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Steig fyrst fæti inn í frystihús 2012 að vinna á makríl-og síldarvertíð. Varð svo fastráðin í lok árs 2015 og svo verkstjóri sumarið eftir.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Ætli það sé ekki bara fjölbreytileikinn, næstum enginn dagur eins. 

En það erfiðasta?

Þessu fylgir oft mikið álag.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það er svo margt skrýtið fyrir mér í þessu starfi að það er líklegast best að ég tjái mig ekkert um það.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Hef unnið með mörgum eftirminnilegum og skemmtilegum sem ég mun líklegast aldrei gleyma en ef ég á að nefna einhvern einn þá er það hún Árdís Inga.

Hver eru áhugamál þín?

Hef áhuga á flestum íþróttum og horfi á þær flestar. Einnig finnst mér gaman að ferðast og hafa það notalegt.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Ég er rosa hrifin af kjöti, og þá helst nautalund og „meðí“. Mér finnst humar líka alveg rosalega góður.

Hvert færir þú í draumfríið?

Verð að segja Balí og einhver skemmtisigling í sól og hita.

 

Deila: