Bökuð lúða á sikileyska vísu með sítrónum ansjósum, kapers og rósmaríni

Deila:

Nú leitum við til snillingsins Jamie Oliver og flettum upp í bókinni Sæludagar með kokki án klæða. Þar er að finna mikið af góðum uppskriftum að fiski og öðrum mat:
Þetta er frábær aðferð til að borða þéttan fisk eins og lúðu, bæði meðalstóra og stóra. Árangurinn verður alveg sérstakur ef fiskurinn er skorinn í sneiðar með beinum í, en gott flak dugir líka. Biðjið fisksalann að skera fiskinn í sneiðar fyrir ykkur. Sumar kjörbúðir selja orðið sítrónur frá Sikiley.

Innihald:

1 hnefi rósmarín, bara blöðin
góð ólífuolía
4 stykki af lúðu 200g hvert eða annar þéttur fiskur í sneiðum
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
2 stórar ósprautaðar sítrónur, fínt sneiddar
1 hnefi saltað kapers, sem þið hafið lagt í bleyti
8 góð ansjósuflök
skvetta af hvítvíni eða prosecco

Aðferð:

Hitið ofninn í 200°C. Steytið rósmarínið í mortéli til að draga bragðið betur fram. Bætið í 6 matskeiðum af góðri ólífuolíu og merjið þetta saman. Kappið helmingnum af blöndunni inn í fiskinn, saltið og piprið og setjið í leirfat eða annað ofnfast fat.
Setjið 4 eða 5 sítrónusneiðar á hverja fisksneið (ég nota hárbeittan hníf til að sneiða sítrónurnar eða þar til gert rifjárn). Stráið kapers yfir og leggið ansjósurnar ofan á. Dreypið afganginum af rósmarínblöndunni yfir, skvettu af víni ef þið viljið og setjið inn í heitan ofninn, í um 15 mínútur ef fiskurinn er beinlaus en annars 25 mínútur.
Takið út úr ofninum og látið hvíla í 5 mínútur alveg eins og þið gerið með kjöt. Stundum kreisti ég ögn af sítrónusafa yfir svo safinn blandist rjómakenndum fisksafanum og ólífuolíu, svo úr verður frábær sósa alveg af sjálfu sér.
Frábært með hvaða gufusoðnu grænmeti sem er og góðu stökku salati.

Deila: