Aldarfjórðungur frá upphafi Smugudeilunnar

Deila:

Aldarfjórðungur er nú liðinn frá upphafi Smugudeilunnar, þegar íslenskar útgerðir sendu tugi togara til veiða í Barentshafi. Íslendingar sögðust eiga sögulegt tilkall til veiða á alþjóðlegu hafsvæði en Norðmenn og Rússar sökuðu þá um rányrkju þar sem reynt væri að ná tökum á stjórnlausri veiði. Farið er yfir söguna á ruv.is:

Deilan stóð yfir árum saman. Norðmenn klipptu aftan úr íslenskum skipum og skutu jafnvel að þeim viðvörunarskotum þegar hæst lét. Að auki þurftu íslenskar útgerðir að greiða háar fjárhæðir ef skip þeirra voru færð til hafnar. Mest urðu átökin á Svalbarðasvæðinu, þar sem Norðmenn höfðu lýst yfir fiskverndarsvæði. Síðar beindust veiðar Íslendinga fyrst og fremst að Smugunni.

Íslensku útgerðirnar fetuðu í fótspor færeyskra starfsbræðra sinna. Tvö skip sem voru með færeyska áhöfn og í færeyskri eigu en skráð í Dóminíska lýðveldinu lönduðu þorski úr Barentshafi á Þórshöfn um sumarið við litla gleði Norðmanna. Í byrjun ágúst ákváðu Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum og Samherji á Akureyri að senda sitt hvorn togarann til veiða. Fljótlega varð ljóst að það væru ekki tvö skip á leiðinni norður í höf heldur myndu þau skipta tugum.

Erfiðleikar á heimaslóð

Arnór Snæbjörnsson rakti gang Smugudeilunnar í samnefndri bók sem kom út í fyrra. Þar lýsti hann því hvernig sumir útgerðarmenn hefðu réttlætt veiðarnar með bágri stöðu á Íslandsmiðum og erfiðum rekstri. Illa áraði hjá mörgum útgerðum þótt betur gengi hjá sumum. Svo voru þeir útgerðarmenn sem sögðust jafnvel hafa verið reknir norður í Barentshaf vegna veiðistjórnar á Íslandsmiðum.

Þetta gerðist á tíma þegar þorskafli við Ísland hafði hrunið, farið úr 450 þúsund tonnum í 150 þúsund tonn. Íslendingar voru reyndar ekki með öllu ókunnugir veiðum í Barentshafi. Þangað höfðu íslensk skip farið til veiða um 1930 og veitt þar með hléum í um þrjá áratugi. Þá veiddu togararnir meðal annars á svæðinu sem síðar varð þekkt sem Smugan.

Umdeilt hafsvæði

Smugan var utan lögsögu nærliggjandi ríkja, á hafsvæði sem afmarkaðist af lögsögu Noregs og Rússlands eins og þær lágu út frá Noregi, Rússlandi og Svalbarða. Smugan var því á alþjóðlegu hafsvæði. Umdeilt var hins vegar í samskiptum ríkja hvort Norðmenn hefðu stjórn yfir svæðinu á grundvelli samninga. Norðmenn og Rússar vísuðu til þess að þangað gengju stofnar úr norskri og rússneskri lögsögu. Íslendingar vísuðu til þess að Smugan væri alþjóðlegt hafsvæði og að Íslendingar ættu sögulegan rétt til veiða þar.

Þann 19. ágúst 1993 lýsti norska strandgæslan því yfir að farið hefði verið um borð í íslenskan togara. Þar hefðu veiðarfærin verið „verulega frábrugðin þeim sem aðrir útlenzkir togarar notuðu“ eins Morgunblaðið hafði eftir Thorstein Myhre skipherra. Að auki sögðu norsk stjórnvöld að 27 prósent afla skipsins hefði verið smáfiskur.

Þennan sama dag voru 29 íslensk fiskiskip annað hvort komin í Smuguna til veiða eða á leiðinni þangað. Í íslenskum fjölmiðlum þessa daga kom fram að samskipti sjómanna og norsku strandgæslunnar hefðu verið góð en hætt væri við því að þau versnuðu þegar togurum í Smugunni stórfjölgaði. Síðar áttu útgerðarmenn eftir að senda til veiða skip sem engan kvóta höfðu á Íslandi og höfðu jafnvel verið keypt fyrir lítið fé í Kanada til senda þau í Smuguna.

 Mikil veiði í fyrstu

Vel fiskaðist fyrstu árin en síðar dró úr veiðum Íslendinga í Smugunni. Deilan hélt þó áfram, allt þar til samkomulag náðist í mars 1999. Þá var samið um 8.900 tonna árlegan afla Íslendinga í Smugunni. Í umfjöllun Morgunblaðsins um það leyti kom fram að Smuguveiðar hefðu skilað 5,5 prósentum af útflutningstekjum Íslendinga árið 1994. Þegar best lét skiluðu þær fimm milljörðum króna, á þávirði, í þjóðarbúið. Þegar samningar náðust voru veiðarnar þó aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem mest varð.

Veiðarnar þóttu erfiðar og lífið um borð reyndist mörgum skipverjum erfitt og tilbreytingarlaust.

 

 

Deila: