Miklar hvalveiðar Japana

Deila:

Lítill floti japanskra hvalveiðiskipa veiddi samtals 177 hrefnur og sandreyðar í nýafstöðnum, þriggja mánaða löngum leiðangri um víðáttur Norðvestur-Kyrrahafs. Japanska sjávarútvegsráðuneytið sendi frá sér tilkynningu þessa efnis í morgun. Þar kemur fram að hvalfangararnir þrír, sem komu nýlega til hafnar í Japan, hafi veitt 43 hrefnur og 134 sandreyðar á 98 dögum. Frá þessu er sagt á ruv .is

Alþjóða hvalveiðiráðið kemur saman til fundar í Brasilíu í september og er vísað til hans í tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins, sem samkvæmt frétt AFP hyggst þar leita samþykkis fyrir því að Japanar fái að taka upp hvalveiðar í atvinnuskyni að nýju. Í dag eru hvalveiðar þeirra skilgreindar sem vísindaveiðar, þótt ekki sé farið leynt með að kjötið endi á veitingastöðum og í kjötborðum verslana.

Fram kemur í tilkynningunni að á næstu dögum og vikum verði unnið úr öllum þeim aragrúa gagna og sýna sem aflað var í leiðangrinum, og niðurstöðurnar síðan lagðar fyrir vísindanefnd Alþjóða hvalveiðiráðsins, í því skyni að auka vísindalega þekkingu manna á hvölum, vernd þeirra og nýtingu.

 

Deila: