Snúið að finna fiskinn

Deila:

Venus NS kom væntanlegur til heimahafnar á Vopnafirði um kvöldverðarleytið í fyrradag með um 960 tonn af makríl til vinnslu. Að sögn Theódórs Þórðarsonar, skipstjóra á Venusi í veiðiferðinni, hefur makríllinn látið hafa fyrir sér og mikil ferð er á honum um þessar mundir.

,,Við vorum að veiðum í Síldarsmugunni í þessum túr og það var dálítið snúið að finna fiskinn. Það var mikil ferð á honum og langt á milli veiðisvæða. Nýjustu fréttir benda hins vegar til að aflinn á heimamiðum sé að glæðast og nú eru skip að veiðum í Víkurálnum fyrir vestan land og svo á Hvalbakshallinu fyrir austan,“ sagði Theódór Þórðarson í samtali á heimasíðu HB Granda.

Víkingur AK er nú að veiðum í Reyðarfjarðardjúpi eftir að hafa komið til Vopnafjarðar með 880 tonna makrílfarm. Hjalti Einarsson skipstjóri segir að Víkingur hafi verið kominn á veiðisvæðið í gærmorgun en Hoffell SU kom svo einnig á miðin.

,,Við erum bara búnir að taka eitt 90 tonna hol þannig að það er of snemmt að segja til um ástandið. Makríllinn er a.m.k. stór og feitur. Annars skilst mér að það sé nokkuð líflegt hjá skipunum fyrir vestan. Þar, eins og annars staðar, er mikil ferð á makrílnum. Eina stundina er allt vaðandi en svo hverfur makríllinn þess á milli,“ sagði Hjalti Einarsson er rætt var við hann.

Deila: