Sólberg ÓF með mestan þorskafla

Deila:

Vel hefur gengið að veiða þorsk á þessu fiskveiðiári. Aflinn var í gær, þegar 9 dagar lifðu af fiskveiðiárinu, orðinn 206.210 tonn. Leyfilegur heildarkvóti er 213.567 tonn eftir tilfærslur frá fyrra ári upp á um 8.300 tonn. Því standa eftir óveidd tæplega 7.400 tonn.

Þó veiðidagar séu fáir eftir má gera ráð fyrir að nánast allur kvótinn náist og lítið verði flutt milli ára. Flutninginn frá síðasta ári á þetta má rekja til verkfalls sjómanna sem stóð í um tvo mánuði. Þetta verður því líklega besta fiskveiðiár í þorski í langan tíma.

Fimm togarar eru nú skráðir á aflastöðulista Fiskistofu með meira en 4.000 tonn af þorski. Nýjasti frystitogari landsmanna, Sólberg ÓF er með mestan afla, 5.356 tonn. Næst kemur Málmey SK með 5.150 tonn, þá Björgvin EA með 4.800 tonn, hjalteyrin EA með .526 tonn og loks Stefnir ÍS með 4.478 tonn. Inni í þessum tölum er ekki afli úr Barentshafi, en þangað sótti Sólbergið að auki um 1.360 tonn af þorski.

Deila: