Flamberaði steikur fyrir alla

Deila:

Á Sauðárkróki er rekin öflug rækjuvinnsla, Dögun. Maður vikunnar er gæðastjóri þar. Hans fyrstu kynni af sjávarútvegi voru hjá K. Jónssyni og Co. á Akureyri fyrir 30 árum. Hann á margar góðar minningar úr sjávarútveginum og hefur skemmtilega sögu að segja frá fjölbreyttu starfi hjá Royal Greenland.

Nafn?

Halldór Karlsson.

Hvaðan ertu?

Ég er Akureyringur.

Fjölskylduhagir?

Fráskilinn og á 4 uppkominn börn.

Hvar starfar þú núna?

Gæðastjóri hjá Dögun, rækjuvinnslu á Sauðárkróki.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Fyrstu kynni mín af sjávarútvegi voru fyrir rúmum 30 árum og þá hjá Niðursuðuverksmiðju K.Jónsson og Co. á Akureyri.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Góð spurning, líklega er það fjölbreytileikinn sem gerir þetta skemmtilegt.

En það erfiðasta?

Þar sem ég hef mest tekið þátt í gæðamálum þá held ég að það erfiðasta í dag sé að halda utan um allar mismunandi kröfur kaupenda og þeirra sérvisku, en það getur reyndar verið áhugavert líka.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það er nú þó nokkuð en líklega er það skemmtilegasta þegar ég var gæðastjóri hjá Royal Greenland í Maniitoq í Grænlandi og við fengum gesti (úttekt) frá M&S í Bretlandi.

Þannig var mál með vexti að ég hafði fyrir utan að vera gæðastjóri tekið að mér að þjóna á hótelinu þegar mikið var að gera þar, eða þegar engir aðrir voru vinnufærir. En á þessum tíma ætti það nú ekki að vera vandamálið, því fáir voru á hótelinu og líklega ekki mikið fleiri í mat um kvöldið en gestir okkar ásamt okkur.

En ekki gekk það nú alveg svo fyrir sig. Seinnipart dags var hringt í mig frá hótelinu og var þeim mikið niðri fyrir og voru í miklum vandræðum þar sem hótelstjórinn var ekki á svæðinu og þau voru að fá að vita að löggan hafði handtekið kokkinn fyrir ölvun við akstur og því enginn til að matreiða fyrir okkur um kvöldið. Nú voru góð ráð dýr en þar sem mér finnst gaman að elda og þykist vera nokkuð frambærilegur á því sviði datt mér strax í hug að við myndum nú bara bjarga þessu og setti ég kokkalærlinginn í það verkefni að undirbúa góðar steikur, sem ég skildi svo sjá um að elda auk þess að undirbúa eftirréttinn sem ég myndi líka sjá um.

Þannig að þegar við mætum um kvöldið og byrjum á fordrykknum og gerum okkur klár til að fara borða, stend ég upp og segi við þá að þeir hafi ekki um neitt val á matseðli, heldur sé búið að panta fyrirfram það sem skal borða og af því sögðu fer ég fram í eldhús og næ í vagninn sem við notum til að flambera með og flambera því steikur fyrir alla og síðan eins með eftirréttinn flamberaðar pönnukökkur með ís og meðlæti og að lokum skolað niður með grænlensku kaffi (svipað og Irish Coffie ).  

Gestirnir frá M&S voru í skýjunum eftir heimsóknina og matinn þarna um kvöldið, en þó jafn hissa á að gæðastjórinn sjálfur skyldi svo þurfa að elda ofan í þá á hótelinu.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þá á ég marga, en vil ekki gera upp á milli þeirra. Sumir skrítnari en aðrir og miklir karakterar, sem mér finnst stundum vanta í nútímanum.
Hver eru áhugamál þín?

Handbolti hefur verið stór hluti að mínu lífi, eins spila ég golf og hef mikinn áhuga á heilsu og næringu.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Þessi er erfið þar sem mér finnst mjög gaman að borða og prufa nýtt.

Hvert færir þú í draumfríið?

Draumafríð væri líklega að ferðast um í Indlandi og kanna krydd og smakka framandi mat.

 

Deila: