„Nýtur nú vaxtar samhliða uppbyggingu í laxeldi“

Deila:

„Ísland er strjálbýlasta land Evrópu og dreifist byggð í borgir, bæi og sveitir. Það er ekki sjálfgefið að búseta á hverjum stað sé stöðug eða fari vaxandi jafnvel þó saga byggðarlaga spanni árhundruð. Með breytingum á atvinnuháttum og samfélagsgerð fylgja fólksflutningar sem hafa áhrif á tækifæri og möguleika svæða til vaxtar. Dæmi um þetta er Bíldudalur sem um tíma átti undir högg að sækja vegna samdráttar í sjávarútvegi en nýtur nú vaxtar samhliða uppbyggingu í laxeldi.“
Þetta kemur fram í grein sem Kári Joensen, Háskólanum á Bifröst og Kristján Þ. Halldórsson, Byggðastofnun skrifuðu á vef Byggðastofnunar og hefur einnig birst á ýmsum héraðsmiðlum
Í grein sinni vísað þeir til greiningar á þeim áskorunum sem dreifðari byggðalög standa frammi fyrir. Litið var til svæða sem hafa ýmist glímt við fólksfækkun, fábreytt atvinnulíf eða skort á uppbyggingu innviða. Einnig verða kynnt þau tækifæri til þjálfunar og samfélagsþátttöku sem unnið er að með verkefninu.
Undangengin ár hefur staðið yfir verkefnið Brothættar byggðir og er það undir forræði Byggðastofnunar. Byggðalög sem hafa staðið höllum fæti hafa fallið undir þetta viðfangsefni. Hefur verið leitast við, með virkri þátttöku heimamanna, að setja fram tillögur og leita leiða til þess að snúa neikvæðri byggðaþróun við.
Á sínum tíma var Bíldudalur í hópi þessara byggðarlaga, en er það nú ekki lengur. Ástæðan er sú sem nefnd er í grein þeirra Kára og Kristjáns; byggðarlagið „nýtur nú vaxtar samhliða uppbyggingu á laxeldi.“

Sjá greinina í heild: https://www.byggdastofnun.is/is/frettir/category/1/throun-byggda-samfelagsthatttaka-og-frumkvodlastarf

 

Deila: