Svipaðar landanir í Færeyjum

Deila:

Landanir í Færeyjum jukust lítillega fyrstu sjö mánuði þessa árs borið saman við sama tímabil í fyrra. Nú var alls landað 48.300, en 47.525 tonnum í fyrra. Það er aukning um 1,6%. Aflaverðmætið nú er 9,2 milljarðar íslenskra króna, sem er aukning um 1,9%.

Botnfiskafli nú var 32.776 tonn, sem er 659 tonnum meira en í fyrra. Mestu munar um vaxandi veiði á þorski og ýsu. Þorskaflinn nú er 9.668 tonn, sem er 1.668 tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Af ýsu hefur verið landað 3.010 tonnum, sem er aukning um 435 tonn. Afli af ufsa hefur hins vegar dregist saman og er nú 14.516 tonn, sem er samdráttur um tæp 6%.

Verðmæti aflans er í miklu samræmi við hlutfallslegar breytingar. Aflaverðmæti í þorski hefur hækkað um 22,7% frá sama tíma í fyrra og í ýsunni er aukningin 13,6%. Verðmæti ufsaaflands hefur á hinn bóginn lækkað um 2,7%.

Deila: