Miklu minna mælist af makríl

Deila:

Umtalsvert minna mældist af makríl, síld og kolmunna í leiðöngrum strandveiðiþjóðanna, sem farnir voru fyrr í sumar. Munar þar allt frá 11% í kolmunna upp í 40% í makríl.

Lokið er samantekt sameiginlegs uppsjávarleiðangurs Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana sem farinn var á tímabilinu 30.júní til 6.ágúst 2018. Megin markmið leiðangursins var að meta magn uppsjávarfiska í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi.

Vísitala lífmassa makríls var metinn 6,2 milljónir tonna sem er 40% lækkun frá árinu 2017 og 30% lægri en meðaltal síðustu 5 ára. Mestur þéttleiki mældist í Noregshafi en mun minna mældist á hafsvæðinu við Ísland en verið hefur undanfarin ár. Líkt og undanfarin ár var þéttleikinn á Íslandsmiðum mestur vestan við landið.

Magn norsk-íslenskrar síldar lækkaði einnig og var vísitala lífmassa metin 4,5 milljónir tonna sem er 24 % lækkun frá árinu 2017. Útbreiðsla stofnsins var svipuð og undanfarin ár fyrir fullorðna hluta stofnsins þar sem mesti þéttleikinn var norður af Færeyjum, fyrir austan og norðan Ísland.

Þriðja árið í röð var lögð aukin áhersla á að fylgjast með útbreiðslu kolmunna og að meta stærð stofnsins. Vísitala stofnstærðar kolmunna sem er ársgamall og eldri var 2,0 milljónir tonna sem er 11% lækkun frá 2017. Kolmunni fannst á mest öllu rannsóknarsvæðinu nema í köldum sjó út af Austur-Grænlandi og milli Íslands og Jan Mayen. Við Ísland mældist mest af kolmunna við landgrunnsbrúnina sunnan við landið.

Yfirborðshiti sjávar sunnan og vestan við Ísland var um 1 – 2 °C lægri en langtímameðaltal síðustu 20 ára en um 1 – 2 °C hærri norðan við landið sem og við austurströnd Grænlands. Í Noregshafi var yfirborðshiti um og yfir meðaltali síðustu 20 ára.

Heildar vísitala um magn dýrasvifs á öllu rannsóknasvæðinu lækkaði um tæpan fimmtung en mikill breytileiki var milli svæða. Þannig mældist um 18% aukning vísitölunnar á hafsvæðinu við Ísland en minnkun var í magninu í Noregshafi og við Grænland.

Niðurstöður leiðangursins voru kynntar Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) í dag og eru niðurstöðurnar, ásamt öðrum gögnum, notaðar við mat á stofnstærð makríls en ICES mun birta ráðgjöf um aflamark síldar, makríls og kolmunna þann 28. september.

Skýrsla með niðurstöðum leiðangursins 

 

Deila: