Mikil aukning í strandveiðum fyrir vestan

Deila:

Strandveiðibátar á svæði A juku afla sinn um 649 tonn á nýafstöðnu strandveiðitímabili miðað við tímabilið í fyrra.  Á svæði B minnkaði aflinn um 288 tonn og 461 tonn á svæði C. Bátar á svæði D fiskuðu hins vegar 84 tonnum meira en í fyrra. Heildarafli á öllum svæðum varð 9.777 tonn, sem er 9 tonnum minna minna en í fyrra. Það er 96% af leyfilegum heildarafla, sem er 10.200 tonn.

Aflinn á svæði A varð alls 4.340 tonn nú, en var 3.691 tonn á tímabilinu í fyrra. Afli á bát var nú 21.5 tonn, sem er rúmum 5 tonnum meira en í fyrra. Aukningin skýrist af mun fleiri dögum á sjó nú en í fyrra, þar sem aflahámark var ekki í gildi fyrir hvert veiðisvæði eins áður hefur verið. Munar þar um um 900 dögum og voru veiðidagar á bát að meðaltali 32 en 24,4 í fyrra.

Á svæði B varð aflinn 1.930 tonn, sem er samdráttur um 288 tonn, enda fækkaði bátum um 16 milli ára. Afli á bát varð 17,7 tonn, sem er aukning um 1,3 tonn. Dögum á sjó fækkaði því í heildina, en að jafnaði voru bátarnir jafnmarga daga á sjó nú og í fyrra.

Á svæði C féll aflinn verulega eða úr 2.364 í 1.902 tonn. Bátarnir voru nú aðeins 78 á móti 95 í fyrra. Veiðidögum fækkaði að sama skapi.

Bátar á svæði D veiddu 1.606 tonn, sem er aukning um 84 tonn. Bátum fjölgaði um 7 og voru nú 68. Afli á bát var13,3 tonn og lækkaði um 1,1 tonn frá árinu áður. Það er því aukinn fjöldi báta sem stendur að auknum afla.

 

 

Deila: