Fiskeldi getur orðið ein af burðarstoðunum
„Fiskeldi getur orðið ein af burðarstoðum atvinnulífsins í Fjarðabyggð og mikilvægt að stjórnvöld skapi heilbrigt og hvetjandi umhverfi til uppbyggingar í greininni. Öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðarkerfisins.“
Þetta kemur fram í ályktun fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Fjarðabyggð. – Hér á eftir fer ályktunin í heild sinni:
Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Fjarðabyggð lýsir yfir undrun sinni á að ekki hafi fengist heimildir fyrir auknu laxeldi í Reyðarfirði eins og burðarþolsmat segir til um og unnið hefur verið að á undanförnum árum. Fyrirhuguð 10.000 tonna viðbótarframleiðsla á laxi í Reyðarfirði sem ætti að taka undir eðlilegum kringumstæðum um það bil tvö ár hefur verið til meðferðar í stjórnsýslunni frá árinu 2012. Ástæður tafanna verða ekki raktar til framkvæmdaraðila heldur síbreytilegs regluverks, afturvirkni og yfirálags á stofnunum ríkisins.
Það er óásættanlegt að fyrirtækjum sem vilja fjárfesta í atvinnuuppbyggingu sé haldið í spennitreyju stjórnkerfisins. Fyrirhugaðar framkvæmdir hafa ítrekað verið settar í uppnám og nú síðast á afar ómálefnalegum sjónarmiðum þar sem þekkt hafbeitará er skilgreind ranglega sem laxveiðiá þrátt fyrir að ritaðar heimildir hundruð ára aftur í tímann sýni með berum hætti að engan laxastofn hefur nokkru sinni verið að finna í ánni.
Fiskeldi getur orðið ein af burðarstoðum atvinnulífsins í Fjarðabyggð og mikilvægt að stjórnvöld skapi heilbrigt og hvetjandi umhverfi til uppbyggingar í greininni. Öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðarkerfisins. Allar atvinnugreinar þurfa starfsumhverfi sem er skýrt og stöðugt til langs tíma. Mikilvægt er að einfalda opinbert eftirlit og tryggja að það hamli ekki framþróun.
Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Fjarðabyggð skorar á Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra að höggva á þann hnút sem umsóknarferlið er í innan íslenska stjórnkerfisins.