Vinna beitukóng, ígulkerahrogn og grjótkrabba

Deila:

Fyrirtækið Royal Iceland vinnur beitukóng, grjótkrabba, ígulkerahrogn og ýmis önnur hrogn í Reykjanesbæ. Það gerir út bátana Blíðu og Fjólu. Blíða dregur grjótkrabba í gildrur og veiði ígulkerin í plóg. Fjóla stundar makrílveiðar og dregur krabba í gildrur.

„Við erum búnir að vera að þessu í beitukóngnum frá 2014 með Blíðuna í Stykkishólmi. Keyptum þrotabú Sægarps á Grundarfirði sem var í veiðum og vinnslu og fluttum vinnsluna til Keflavíkur. Erum að veiða 200 til 300 tonn af beitukóngi á ári og erum einir um hituna, en veiðarnar eru aðalverkefni Blíðu. En henni var líka breytt til að geta dregið plóg. Hún getur því verið til skiptis að draga gildrur fyrir beitukóng og plóg fyrir ígulker. Á haustin er hún að veiða ígulker, sem einnig eru unnin í keflavík, en það eru hrognin úr þeim sem eru nýtt,“ segir Lúðvík Börkur Jónsson, framkvæmdastjóri Royal Iceland.

Beitukóngurinn er soðinn og fer mest til Bandaríkjanna, Kína og Frakklands eftir stærð og lit. „Við sjóðum hann flokkum eftir lit og stærð. Sá minnsti fer til Frakklands, venjulegur beitukóngur fer til Bandaríkjanna og ef hann er grænn, fer hann til Kína. Það er nokkuð flókið ferli að fá þetta allt til að ganga upp. Sæsniglar eins og beitukóngurinn er vinsæl vara víða um heim og Frakkar veiða til dæmis um 13.000 tonn árlega og Írar eitthvað svipað. Við erum því litlir hér á Íslandi í því samhengi með 200 til 300 tonn.,“ segir Lúðvík Börkur.

Ígulkerahrogn eru einhver dýrustu hrogn í heiminum. Þau eru fullunnin hjá Royal Iceland og fara langmest til Evrópu, þar sem þau eru notuð í sushi.

„Við erum svo mikið í öðrum hrognum og vinnum alls konar afurðir úr þeim. Þetta er gamla Bakkavör, sem hét síðan Fram Food og við njótum þess dálítið í markaðsmálunum. Við erum með annan bát, Fjólu GK sem er á makríl, þegar sú vertíð stendur yfir og veiðir líka grjótkrabba. Hann barst hingað með flutningaskipi fyrir 20 árum eða svo.  Krabbaveiðin er aðallega á  haustin og í fyrra var aflinn um 8 tonn. Þetta er langhlaup sem taka mun mörg ár að skila góðum árangri. Stjórnvöld þurfa að koma meira að þessu með því að liðka fyrir viðskiptum við lönd eins og Kína, en þar eru mörg atriði, sem þarf að leysa.

Mottóið mitt er, að ef það er erfitt að veiða það, flókið að vinna það og markaðirnir eru þröngir, þá vil ég reyna að finna út úr hlutunum. Í staðinn fyrir að fara bara í það sem auðveldast er í sjávarútvegi á hverjum tíma eins og svo margir gera,“ segir Lúðvík Börkur Jónsson.

Deila: