Íslenski fiskurinn í aðalhlutverki

Deila:

Mikið var um að vera á Íslandsdögum (Islandtage) sem haldnir voru á hafnarsvæðinu í Bremerhaven, Þýskalandi dagana 29. ágúst til 2. september.

Hátíðin var skipulögð af bæjar- og hafnaryfirvöldum í Bremerhaven auk íslenskra og þýskra fyrirtækja á svæðinu, en tilefnið var 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Fjöldi manns heimsótti hátíðina og var dagskráin mjög fjölbreytt. Má þar nefna siglingar á víkingaskipum, uppboðsmarkað með íslenskum ferskum fiski fyrir almenning og hestasýningar með íslenska hestinum. Íslandsstofa og Iceland Responsible Fisheries komu að skipulagi nokkurra dagskrárliða, einkum til að kynna sjávarfang og ábyrgar fiskveiðar en einnig fór fram kynning á Íslandi sem áfangastað ferðamanna og íslenska hestinum. Sendiherra Íslands í Þýskalandi, Martin Eyjólfsson, tók virkan þátt í hátíðinni.

Málstofa um íslenska fiskinn og íslenskur landsliðskokkur með sýnikennslu
Sérstök málstofa um íslenskan fisk Bremenhavener Fischforum var haldin 30. ágúst í húsakynnum Seefischkochstudio. Martin sendiherra flutti ávarp og fulltrúi frá Íslandsstofu hélt erindi um íslenskan fisk þar sem komið var inn á mikilvægi sjálfbærni, ábyrgra fiskveiða og vottunar. Gullkarfi, ufsi og þorskur eru þær tegundir sem eru hvað mikilvægastar Íslendingum á þýska markaðnum, en þessar tegundir hafa einnig verið vottaðar af Iceland Responsible Fisheries. Gestir málstofunnar voru flestir hagsmunaaðilar úr þýskum sjávarútvegi, um 30 talsins. Eftir málstofuna bauð íslenskur landsliðskokkur til margra ára, Fannar Vernharðsson, upp á dýrindis þorskrétt sem svo sannarlega sló í gegn. Þar að auki var Fannar með sýnikennslu á sviði fyrir 80 manns og matreiðslunámskeið þar sem gullkarfi og ufsi voru í aðalhlutverki.
Fjölmiðlaboð og vinningsferð til Íslands
Íslandsstofa bauð fjölmiðlafólki að þiggja veitingar sem Fannar töfraði fram í Eldhúsinu, litlu húsi sem Íslandsstofa hefur notað í kynningarstarfi á erlendri grund. Tvær fréttir – annars vegar um matreiðslu Fannars og hins vegar um íslenskan fisk – hafa nú þegar verið sýndar í vinsæla sjónvarpsþættinum Buten un Binnen á sjónvarpsstöðinni Radio Bremen. Þess má geta að þættirnir eru einnig aðgengilegir á vefsvæði ARD stöðvarinnar sem er ein útbreiddasta sjónvarpsstöð Þýskalands. Sjá hérna frétt um íslenskan fisk í Buten un Binnen frá 30. ágúst (15:10-17:11) og sjá hérna frétt Buten un Binnen frá 1. september þar sem Fannar eldar m.a. þorskrétt. Fjöldi manns heimsótti Eldhúsið á Íslandsdögunum en þar var m.a. hægt að taka þátt í Facebook leik og vinna Íslandsferð, en hana hlaut Wiebke Schüler frá Nordholz.

 

Deila: