Leggja til afnám sérveiðileyfa

Deila:

„Lagt er til að sérveiðileyfi fyrir þær tegundir sem lúta aflamarki verði felld úr gildi sem og sérveiðileyfi og svæðaskipting fyrir dragnót. Nú þegar hefur verið fallið frá því að gera kröfu um sérveiðileyfi í þeim tegundum sem lúta aflamarki og eru veiddar innan lögsögu, þ.e. gulllaxi, innfjarðarrækju, hörpudiski og íslenskri sumargotsíld með vörpu.“

Þetta er meðal tillagna frá starfshópi Starfshópur sem hafði það hlutverk að gera faglega heildarendurskoðun á regluverki er varðar notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum Hópurinn hefur skilað lokaskýrslu ásamt tillögum til Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Helstu aðrir efnisþættir skýrslunnar eru eftirfarandi:

Endurskoðun almennra reglugerða

Stærstur hluti tillagna starfshópsins snýst um að einfalda og skýra regluverk. Samkvæmt tillögunum þá hafa reglugerðir sem hafði verið breytt oftar en tvisvar verið endurútgefnar, reglugerðir sem fjölluðu nánast um sama efni hafa verið sameinaðar og reglugerðir sem ekki var beitt lengur felldar úr gildi. Nú þegar er búið er að einfalda regluverkið með því að fækka 34 reglugerðum niður í átta.

Kjörhæfni veiðarfæra

Starfshópurinn leggur til að núverandi reglum um fiskibotnvörpu verði breytt í þá veru að felld verði út ákvæði um lágmarksmöskva, sem í dag er 135 millimetrar. Einnig að felld verði út ákvæði um smáfiskaskilju sem og margvíslegar reglur um styrktarbúnað á poka. Í þessu felst að útgerðum og skipstjórum verði heimilt að útfæra og þróa sín veiðarfæri sjálf, en um leið verði gerðar strangar kröfur um að ekki séu stundaðar skaðlegar veiðar, þ.e. veiðar á ungviði eða veiðar sem valda umtalsverðu raski á botni eða lífríki.

Einföldun á reglum um lokanir svæða til verndunar ungviðs

Starfshópurinn leggur til að viðmiðunarmörk fyrir þorsk, ýsu og ufsa verði 50% en þau eru nú 25% í þorski og 30% í ýsu og ufsa. Jafnframt er lagt til að lokað verði fyrir veiðar á svæðum þar sem mest hefur verið um skyndilokanir á grunnslóð. Með þessum aðgerðum ættu skyndilokunum að fækka töluvert.

Friðunarsvæði

Starfshópurinn leggur til að öll friðunarsvæði vegna kórala og hrygningar verði enn í gildi auk þess sem svokölluð skiljusvæði verði felld úr gildi. Þá leggur starfshópurinn til að núgildandi friðunarsvæði verði rannsökuð og ákvörðun um framhald lokana verði teknar á grundvelli þeirra rannsókna.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:  „Heildarendurskoðun á regluverki um notkun veiðafæra, veiðisvæða og verndunarsvæða á Íslandsmiðum var löngu tímabær og því fagna ég að þessi skýrsla sé komin fram. Ég hef þegar sett af stað vinnu til að vinna áfram með tillögur hópsins með það að markmiði að stuðla að einfaldara og skýrara regluverki og tryggja góða umgengni um sjávarauðlindina.“

 

 

Deila: