Saltfiskur að hausti

Deila:

Sumri hallar hausta fer. Þá er gott að verja kvöldunum í að borða góðan mat, svona til að taka úr sér mesta hrollinn, þegar norðan bálið ber land og þjóð eins og harðfisk. Þá fáum við okkur að sjálfsögðu fisk og hvað gæti hentað betur en saltfiskur á suðræna vísu. Við fundum góðan bækling frá Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda, SÍF, frá mektardögum þess góða félagsskapar þegar bréfsími (fax) var enn við lýði og netfang nýlunda.
Okkur gamla settinu finnst fátt betra á svona haustkvöldum en að gæða okkur á salfiski að suðrænum hætti, láta hugann reika suður á bóginn, þar sem haustin eru eins og besti sumardagur á Íslandi, kveikja á kertum og jafnvel leyfa okkur að dreypa á hinu frábæra spænska rioja ruðvíni Muga. Frábært kvöld í vændum.

Innihald:

4 útvatnaðir saltfiskbitar, hver biti um 150 g
250 g villisveppir
100 g hvítar baunir, soðnar eða niðursoðnar.
1 laukur
2 hvítlauksrif
1 græn paprika
1 lítil dós tómatkraftur
1 dl rauðvín
hveiti
olía

Aðferð:

Þerrið saltfiskinn. Veltið bitunum upp úr hveiti og steikið í mikilli olíu, við meðalhita, þar til fiskurinn tekur fallegan lit.
Afhýðið laukinn og saxið hann smátt, afhýðið hvítlaukinn og skerið í bita, hreinsið paprikuna og skerið í hringi. Hreinsið sveppina, skerið neðsta hlutann af. Ef sveppirnir eru litlir eru þeir hafðir í heilu lagi, annars skornir í bita.

Látið laukinn, hvítlaukinn og paprikuna krauma í olíu við vægan hita þar til grænmetið fer að taka lit. Bætið tómatkraftinum út í og látið sjóða í 5 mínútur við vægan hita. Bætið rauðvíninu og sveppunum út í og aukið hitann þannig að sósan sjóði dálítið niður. Bætið að lokum steiktum saltfiskbitunum við og látið malla við vægan hita í 5-6 mínútur þannig að hráefnið taki bragð hvert af öðru.

Deila: