Breta geta lært af Íslendingum

Deila:

Bretar geta lært af Íslendingum þegar kemur að því að móta fiskveiðistefnu eftir Brexit segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Hann segir vandræðin við útgöngu Breta sýna að Ísland geti ekki verið í Evrópusambandinu. Þetta segir Guðlaugur í samtali við ruv.is

Mótun nýrrar fiskveiðistefnu er eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem bíða Breta eftir útgöngu úr Evrópusambandinu. Guðlaugur segir stjórnvöld reiðubúin að vera Bretum innan handar við það verkefni. „Bretar hafa sýnt fiskveiðikerfi okkar mikinn áhuga, og eru ekki einir um það. Michael Gov, núverandi sjávarútvegsráðherra, kom til dæmis hingað til Íslands. Meðal annars til þess að kynna sér þessi mál. “

Það veki áhuga annarra þjóða sé að hér sé sjálfbærni í fiskveiðum. „Síðan erum við eina þjóðin, síðast þegar ég kannaði, innan OECD sem er að fá nettó skatta af fiskveiðiauðlindinni, eða sjávarútveginum í heild sinni,“ segir Guðlaugur.

Íslendingar búi yfir hagkvæmri lausn

Breska blaðið Telegraph birti í gær umfjöllun um að Íslendingar búi yfir hagkvæmri laus fyrir fiskveiðar Breta eftir Brexit. Þar er vitnað í Guðlaug sem segir Breta geta lært af ferli Íslendinga.

En hefur verið leitað formlega til þín með þessi mál af yfirvöldum í Bretlandi?„Þeir eru ekki ennþá komnir með málin í sínar eigin hendur. Það flækir aðeins málin. Þeir eru til dæmis ekki kominir með viðskiptamálin eða heimild til að semja um sína eigin samninga og ekki heldur komnir með stjórn á sínum fiskveiðum og þeir fá það ekki formlega, fyrr en þeir eru gengnir út úr Evrópusambandinu.“

Ísland geti ekki verið í ESB

Bretar ganga úr Evrópusambandinu í lok mars á næsta ári en enn virðist allt í hnút. Guðlaugur segir vanta upp á að hugsað sé út frá lausnum. Mikilvægast sé að viðskipti verði áfram hindrunarlaus í álfunni. Bretlandseyjar séu ekki að fara neitt, þær verði áfram á sínum stað.

„Stóra málið kannski fyrir okkur Íslendinga þegar við horfum á þetta. Við hljótum að draga þá ályktun að við getum alls ekki verið inni í Evrópusambandinu. Því allt það sem hefur verið sagt um það að það sé ekkert mál að fara út ef okkur líkar ekki við veruna, það eru röksemdir sem enginn getur notað aftur,“ segir Guðlaugur.

 

Deila: