ICES leggur til samdrátt í veiðum á kolmunna

Deila:

Alþjóða hafrannsóknaráðið, ICEC,  leggur til, í samræmi við langtímanýtingarstefnu, að kolmunnaafli ársins 2019 verði ekki meiri en 1,14 milljón tonn. Ráðgjöf fyrir árið 2018 var 1,39 milljón tonn en gert er ráð fyrir að aflinn á árinu verði um 1,7 milljón tonn.

Kolmunnaafli íslenskra skipa árið 2017 var 228 935 tonn sem er 22% aukning frá 2016. Mest var veitt innan færeyskrar lögsögu, rúm 195 000 tonn. Um 11% aflans fékkst innan íslenskrar lögsögu, sem er svipað og verið hefur frá árinu 2006. Til samanburðar var um 60% afla íslenskra skipa veiddur innan íslenskrar lögsögu á árunum 1997–2005. Heildarafli úr stofninum árið 2017 var 1. 558. 061 tonn sem er 32% aukning frá 2016.

Úthlutaður kolmunnakvóti Íslands á þessu ári er tæp 276.000 tonn. Eftir sérstakar úthlutanir og flutning heimilda frá árinu áður, er leyfilegur heildarafli ríflega 314.000 tonn. Aflinn nú er orðinn 247.400 tonn, sem er orðinn mesti kolmunnaafli á ári á þessum áratug. Hugsanlega næst allur leyfilegur afli, en þegar stóru uppsjávarfiskiskipin hafa lokið síldveiðum í haust, halda flest þeirra til kolmunnaveiða á ný fram að jólum.

Frá árinu 2011 hefur veiðidánartala hækkað og hefur frá árinu 2014 verið yfir þeim fiskveiðidauða sem gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið (FMSY). Hrygningarstofninn hefur minnkað frá árinu 2017 en er enn vel ofan við aðgerðamörk. Árgangar 2016 og 2017 eru metnir undir meðallagi en árgangar 2013–2015 voru stórir.

Samkvæmt stofnmatslíkani er 2017 árgangurinn lítill, sem er í samræmi við niðurstöður rannsóknaleiðangra sem ekki eru notaðar í líkaninu. Stofninn muni því líklega minnka næstu árin þegar árgangar 2016 og 2017 koma að fullu inn í veiðistofninn.
Norðmenn, Rússar, Færeyingar og Evrópusambandið hafa síðan 2004 mælt stærð hrygningarstofns kolmunna með bergmálsmælingum á hrygningarstöðvunum vestan Bretlandseyja og sunnan Færeyja í mars–apríl. Þetta er eini leiðangurinn sem notaður er til samstillingar í stofnmatslíkaninu. Ekki hefur náðst samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr stofninum um skiptingu aflamarks og hafa veiðar verið langt umfram ráðgjöf ICES.

Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér og frekari upplýsingar í tækniskýrslu sérfræðinganefndar ICES.

Ráðgjöf ICES má í heild sinni finna á vef ráðsins.

 

Deila: