Alltaf eitthvað nýtt að gerast

Deila:

Maður vikunnar að þessu sinni hefur unnið við fiskimjölsiðnaðinn í fjóra áratugi víða um land, þó hann sé borinn og barnfæddur Reykvíkingur. Á yngri árum spilaði hann fótbolta með Víkingi í Reykjavík, Þrótti Neskaupstað og Sindra á Hornafirði. Nú er hann gæðastjóri mjöl og lýsisvinnslu Síldarvinnslunnar og býr á Seyðisfirði.

Nafn?

Þórhallur Jón Jónasson

Hvaðan ertu?

Ég er borinn og barnfæddur  Reykvíkingur en hef búið í Neskaupstað, Höfn á  Hornafirði, Siglufirði og bý nú á Seyðisfirði.
Fjölskylduhagir?

Kvæntur Sigríði Fanný Másdóttur, eigum tvo fullorðna unga, Guðlaugu Dröfn  og Lárus Frey sem búa í Reykjavík. Barnabörnin orðin fjögur.
Hvar starfar þú núna?

Er gæðastjóri mjöl-og lýsisvinnslu Síldarvinnslunnar.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Árið 1977 komst ég í kynni við hann þegar  ég  hóf störf sem útibústjóri Rannsóknastofnunar Fiskiðnaðarins í Neskaupstað og þaðan lá leiðin í fiskmjöls-og lýsisiðnaðinn til Hafnar í Hornafirði í byrjun 1985 og og þaðan var ekki aftur snúið. Síðan til Síldarverksmiðja Ríkisins og SR-mjöls á Siglufirði og er nú hjá Síldarvinnslunni eftir samrunann.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Ég hef verið svo lánsamur að kynnast öllum fjöldanum af góðu og skemmtilegu  fólki og það hefur alltaf eitthvað nýtt verið að gerast í gegnum tíðina.
En það erfiðasta?

Þegar brjáluð vertíð i er í gangi samtímis tregðu  í sölumálum og birgðir hlaðast upp.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það var þegar við Kristján Rögnvaldsson hafnarstjóri á Siglufirði uppgötvuðum að kolasalli sem var verið að skola í sjóinn hlyti að vera brúnþörungar. Þetta var líffræðilegt afrek hjá okkur félögunum.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ég hef átt og á í dag fjölmarga frábæra  vinnufélega sem allir eru eftirminnilegir. Ég get nefnt gamla félaga  Þorstein Ingvarsson, Sveinbjörn Sverrisson, Þórð Jónsson, Þórð Andersen, Steingrím Garðarsson og Sigurð Elefsen svo nokkrir séu nefndir.   
Hver eru áhugamál þín?

Ég hef gaman af sögu, tungumálum og raunvísindum  og mikinn áhuga á íþróttum, einkum fótbolta. Til að monta mig þá hef ég spilað með Víkingi, Þrótti Neskaupstað og Sindra á Höfn. Alltaf jafn gaman.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Soðinn og steiktur þorskur að hætti Siggu Fannýjar.

Hvert færir þú í draumfríið?

Til Krítar.

 

 

Deila: