Aukið verðmæti landaðs afla vestanlands

Deila:

Verðmæti landaðs afla á Vesturlandi í júní jókst um tæp 66% miðað við sama tíma í fyrra. Á Suðurnesjum jókst aflaverðmæti um 27%, um 25,5% á Vestfjörðum og 11,3% á höfuðborgarsvæðinu. Í öðrum landshlutum dróst verðmæti fiskaflans saman. Verðmæti landaðs afla á öllu landinu hækkaði um 4,2%.

Eftir sem áður er verðmæti landaðs fiskafla mest á höfuðborgarsvæðinu. Í júní síðastliðnum var þar landað afla að verðmæti 2,7 milljarðar króna, sem er vöxtur um 11,3%. Næsti landshluti á verðmætaskalanum eru Suðurnesin með 945,2 milljónir króna og í þriðja sæti er Norðurland eystra með 819 milljónir, þrátt fyrir samdrátt um 18,5%.

Þá kemur Austurland með 633 milljónir króna, sem er samdráttur um 11%, síðan Vesturland með 565 milljónir, Vestfirðir með 479 milljónir, Norðurland vestra með 412 og lestina rekur Suðurland með 336 milljónir króna.

Þegar litið er á þessar sveiflur í verðmæti landaðs afla milli landshluta er að mörgu að huga. Hvort frystitogari landar einu sinni eða tvisvar í mánuði eða sitt hvoru megin við mánaðamót, getur ráðið mjög miklu þar sem aflaverðmæti er að jafnaði frekar lágt. Samdrátt á Austurlandi má meðal annars rekja til þriðjungs samdráttar í kolmunnaafla og breytt fyrirkomulag á strandveiðum hefur breytt nokkru á Vesturlandi og Vestfjörðum.

 

Deila: