Meira utan óunnið í gámum

Deila:

Sala á óunnum fiski í gámum til útflutnings hefur farið vaxandi undanfarna mánuði. Í júní síðastliðnum var verðmæti gámafisksins 548 milljónir króna, en var 347 milljónir í sama mánuði í fyrra. Þetta er aukning um 58%.

Sé litið til síðustu 12 mánaða frá og með júní, er útflutningsverðmætið rétt tæpir 5 milljarðar króna, sem er aukning um 17,3%. Þetta er umtalsvert hærra hlutfall en verðmæti heildarafla skipt eftir tegundum löndunar. Í júní jókst verðmæti landaðs afla í heild um 4,2% og um 8,4% á síðustu 12 mánuðum frá júní.

Verðmæti landaðs afla í beinum viðskiptum jókst um 12,8% í júní, en sala á innlendum mörkuðum til vinnslu innanlands  jókst enn meira mælt í verðmætum eða um 42%. Þá aukningu má að mestu leyti rekja til hærra fiskverð á mörkuðunum, fremur en aukins magns.

Verðmæti sjófrysts afla lækkaði verulega, eða um 32%. Það skýrist einfaldlega af minni afla, því verð á sjófrystum afurðum hefur verið nokkuð gott.

Deila: