Gildi fer fram á frekara mat á kaupum HB Granda á Ögurvík

Deila:

Tillaga Gildis um frekar óháð mat á kaupum HB Granda á öllu hlutafé Ögurvíkur, verður telin fyrir á hlutahafafundi HB Granda á morgun. Í kjölfar þeirrar tillögu hefur framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur lagt til að horfið verði frá sölunni á Ögurvík að sinni.

Tilkynning stjórnar HB Granda um hluthafafundinn er svohljóðandi:

„Um leið og minnt er á áður boðaðan hluthafafund HB Granda hf. sem haldinn verður þriðjudaginn 16. október 2018 í höfuðstöðvum félagsins að Norðurgarði 1, 101 Reykjavík og hefst klukkan 17:00, þá er nú kynnt endanleg dagskrá fundarins, með breytingu sem helgast af tillögu frá Gildi lífeyrissjóði um breytta málsmeðferð og undirbúning vegna tillögu stjórnar, sem áður hefur komið fram.

Dagskrá:

Tillaga Gildis lífeyrissjóðs um málsmeðferð og frekari undirbúning vegna tillögu undir 2. tl.

Tillaga um að staðfesta ákvörðun stjórnar um kaup félagsins á öllu hlutafé Ögurvíkur ehf

Önnur mál

Tillaga Gildis lífeyrissjóðs felur í sér, ef samþykkt verður, að fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hf. verður falið að meta fyrirhuguð viðskipti og skilmála vegna kaupa á öllu hlutafé Ögurvíkur ehf. og skila rökstuddri niðurstöðu eigi síðar en 29. október 2018, sem kynnt verður hluthöfum í kjölfarið, og þeir munu síðan fjalla um tillögu stjórnar á framhaldshluthafafundi hinn 2. nóvember 2018.

Dagskrá, tillögur og öll skjöl sem lögð verða fyrir fundinn, þ.m.t. tillögur stjórnar og Gildis lífeyrissjóðs ásamt greinargerðum, eru hluthöfum tiltæk á íslensku, á heimasíðu félagsins og á skrifstofu félagsins á venjulegum skrifstofutíma.

Allar nánari upplýsingar um fundinn má finna á vefsíðu félagsins www.hbgrandi.is

Til upplýsingar skal þess getið að stjórn HB Granda hf. mun hittast á fimmtudag og ræða bréf framkvæmdastjóra Útgerðarfélags Reykjavíkur (stærsta hluthafa HB Granda hf.) til HB Granda hf. og tillögu sem þar kemur fram um að hætta við viðskiptin með alla hluti í Ögurvík ehf. að sinni.“

 

Deila: