Fimm fiskar kostuðu heimavigtunarleyfið

Deila:

Fata með þremur þorskum og tveimur grásleppum sem ekki voru vigtuð vegna mistaka varð til þess að Ísfélag Vestmannaeyja missti leyfi til að vigta eigin afla í heilt ár. Framkvæmdastjórinn hvetur til þess að viðurlögin verði endurskoðuð og stjórnvaldssektum beitt í stað leyfissviptinga samkvæmt frétt á ruv.is.

Fiskistofa svipti fyrr á árinu þrjú stór sjávarútvegsfyrirtæki, Skinney Þinganes, Loðnuvinnsluna og Ísfélagið, leyfi til að vigta afla, tímabundið. Forsvarsmenn fyrirtækjanna segjast hafa misst leyfin fyrir litlar sakir og Ísfélagið sem missti leyfið í heilt ár kallar eftir því að viðurlög séu í samræmi við alvarleika brota.

Loðnuvinnslan var svipt vigtunarleyfi í átt vikur í tvígang, fyrst í apríl og aftur í maí. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu var það aðallega vegna þess að vog var ekki innsigluð eftir viðgerð en hafði þó ekki verið notuð. Í hitt skiptið hafði meðaflaprufa ekki verið set á réttan stað í verksmiðjunni og var því ekki færð á rétt eyðublað.

Skinney Þinganes missti vigtunarleyfi í átta vikur um miðjan ágúst og þær upplýsingar fengust frá fyrirtækinu að þar hafi verið um smámuni og mannleg mistök að ræða en það var ekki útskýrt frekar.

Ísfélag Vestmannaeyja missti hins vegar svokallað heimavigtunarleyfi í apríl og fær það ekki aftur fyrr en 12 mánuðir eru liðnir. Stefán Friðriksson framkvæmdastjóri segir að vegna mistaka hafi þrír þorskar og tvær grásleppur sem komu sem meðafli ekki verið vigtaðar heldur líklegast farið með afskurðum í bræðslu. Óþægindi og kostnaður fylgi því að missa vigtunarleyfið því nú þurfi starfsmenn hafnarinnar að sjá um vigtunina á öllum tímum sólarhringsins. Það hafi hvorki verið ásetningur né ávinningur fyrir fyrirtækið af brotinu. Eðlilegra væri að Fiskistofa hefði heimild til að beita viðurlögum í samræmi við alvarleika brota til dæmis stjórnvaldssektum.

Eyþór Björnsson Fiskstofustjóri segir viðurlög lögbundin og svokallað heimavigtunarleyfi byggist á algjöru trausti. „Þarna er um að ræða oft á tíðum fyrirtæki sem eiga fiskvinnsluna, eiga veiðiskipið og síðan er það starfsmaður fiskvinnslunnar sem vigtar aflann til aflaskráningar í rauninni án aðkomu nokkurs opinbers aðila. Ég myndi segja að þessi þungi viðurlaganna endurspegli það traust sem þessum aðilum er sýnt með vigtunarleyfinu,“ segir Eyþór.

 

Deila: