ICEC hækkar ráðgjöf í síld um 53%

Deila:

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur sent frá sér ráðleggingu um veiðar ársins 2019 fyrir norsk-íslenska síld. Byggja þau ráð á nýrri aflareglu sem strandríkin samþykktu fyrr í þessum mánuði. ICES ráðleggur í samræmi við aflaregluna að afli ársins 2019 verði ekki meiri en 588.562 tonn.

Ráðgjöf yfirstandandi árs er 384 þúsund tonn og er því um að ræða nær 53% aukningu í ráðlögðum afla. Ástæða þess er fyrst og fremst þær breytingar sem gerðar hafa verið á aflareglunni sem leiða til hærri veiðidánartölu. Hrygningarstofninn heldur áfram að minnka og nýliðun hefur verið slök um langt árabil.

Afli íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 2017 var 90 .400 tonn og var allur veiddur í flotvörpu. Rúmlega 62% aflans fékkst innan íslenskrar lögsögu, um 32% í færeyskri lögsögu og um 6% á alþjóðahafsvæði. Veiðar úr stofninum fóru fram frá ágúst til nóvember. Mest veiddist í október (59%) og í september (18%). Þungamiðja veiðanna hefur því verið seinna á árinu undanfarin ár. Leyfilegur afli íslenskra skipa úr norsk-íslenska stofninum á þessu ári er 85.499 tonn.

Heildarafli allra þjóða úr stofninum árið 2017 var 721.566 tonn. Áætlað er að heildarafli á þessu ári verði 546.448 tonn.

 

Deila: