Vélarvana bát bjargað

Deila:

„Þetta fór vel en þetta leit ekki vel út í upphafi,“ segir Guðmundur Helgi Önundarson, formaður svæðisstjórnar Landsbjargar á Reykjanesi, um björgun skipsins Valþórs GK-123 sem bilaði skammt fyrir utan Garðskagavita í hádeginu í gær. Fimm manna áhöfn var um borð.

„Skipið var nálægt landi, um einni sjómílu frá Garðskagavita og rak um 0,2 sjómílur frá því boð berast um aðstoð og þangað til björgunarskipið Hannes Hafstein er komið að skipinu. Skipið var rétt norðan við flösina á Garðskagavita. Það er mjög aðgrunnt þarna og þeir sem fara fyrir Garðskagann þurfa að vera meðvitaðir um flösina. Þarna voru tólf metrar á sekúndu í hádeginu og norð norðaustan átt þannig að þeir voru með vindinn á sig og skipið rak í átt að landi. Það varð þeim til happs að sýna rétt viðbrögð og koma akkeri niður og bíða aðstoðar,“ segir Guðmundur í samtali við ruv.is.

Alls hafi 27 björgunarsveitarmenn úr björgunarsveitunum Sigurvon, Ægi og Suðurnesjum tekið þátt í aðgerðunum sem Landhelgisgæslan stjórnaði.

Guðmundur segir að björgunarskipið hafi verið komið að Valþóri um 25 mínútum eftir að Vaktstöð siglinga óskaði eftir aðstoð þess klukkan 12:24.  Þyrla Landhelgisgæslunnar hafi verið komin yfir skipið tæpum hálftíma síðar.
Guðmundur segir að Valþór hafi verið búinn að draga upp akkeri og kominn í öruggt tog Hannesar og Vonarinnar GK10 klukkan 13:17 og til hafnar þremur klukkustundum síðar.
Mynd og myndband af fréttavefnum vf.is

 

https://www.facebook.com/VikurfrettirEhf/videos/573938676371778/

 

 

Deila: