Líkur á verðhækkun í kjölfar minni kvóta í Barentshafi

Deila:

Norðmenn og Rússar hafa komist að samkomulagi um lækkun kvóta á þorski og ýsu í Barentshafi. Það gæti leitt til verðhækkunar á þessum fisktegundum á mörkuðum í Evrópu. Verð á ýsu hefur farið hækkandi og óttast fiskkaupendur að þetta leiði til enn frekari hækkana.

Niðurskurðurinn er ákveðinn í kjölfar ráðlegginga Alþjóða hafrannsóknaráðsins, ICES, en í Barentshafinu eru einhver gjöfulustu fiskmið fyrir botnfisk á norðurhveli jarðar. Þorskkvótinn í Barentshafi var um ein milljón tonna fyrir nokkrum árum, en nú verður hann 725.000 tonn á næsta ári, sem er 6% lækkun frá fyrra ári. Lækkunin er þó ekki eins mikil og IVES lagði til, sem var 674.600 tonn.

Ákveðið hlutfall heildarkvótans er tekið frá vegna veiða annarra þjóða en Norðmanna og Rússa samkvæmt samningum þar að lútandi. Ísland er meðal þeirra þjóða sem hafa þorskkvóta í Barentshafi, tæplega 10.000 tonn á þessu ári. Hlutur Norðmanna í þorskkvótanum verður 328.700 tonn, þar af 21.000 tonn af þorski í strandveiðum og 7.000 tonn til rannsókna.

Ýsukvótinn hefur verið ákveðinn 172.000 tonn. Hann er á þessu ári 202.000 tonn en tillaga ICES var um veiðar að hámarki 152.000 tonn.

Þá hefur náðst samkomulag um að engar loðnuveiðar verði stundaðar á næsta ári vegna slaks ástands loðnustofnsins.

Deila: