Humarstofninn í sögulegu lágmarki

Deila:

Humarstofninn við Ísland er í sögulegu lágmarki og síðasta humarvertíð var sú lélegasta frá upphafi hér á landi. Fiskifræðingur segir veiðibann til umræðu en margt annað megi gera til að byggja upp stofninn.

Nýliðun í humarstofninum hefur minnkað allt frá árinu 2005 og nær engin nýliðun hefur orðið frá 2010. Nýliðun byggist á að fimm ára humrar komi inn í stofninn.

Humarstofninn minnkað hratt síðustu ár

Humarstofninn er því sífellt að dragast saman og hefur minnkað hratt allra síðustu ár. „Við erum komin með hátt í átta ár þar sem nýliðun er lítil sem engin. Og það eru fáir stofnar sem þola slíkt til lengdar,“ segir Jónas Páll Jónasson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun í samtali við ruv.is.

Spurning hvað stofninn þolir mikla veiði

Og þetta birtist í humarveiðinni því nýliðin vertíð var sú lélegasta frá upphafi. Veiðin var um 820 tonn, mun minni en árið þar á undan. Til samanburðar veiddust tæp 2000 tonn fyrir fimm árum. Og þó humarveiðar hér séu frekar hófsamar og veiðihlutfallið lágt er spurning hvað stofninn þolir í þessu ástandi. „Auðvitað skipta veiðar máli þegar engin nýliðun kemur inn,“ segir Jónas.

Veiðibann á humri hafi verið til umræðu

Veiðiráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár verður birt eftir áramótin og Jónas segir augljóst að breytingar verði á þeirri stefnu sem fylgt hafi verið. Veiðibann á humri hafi þar verið rætt, en einnig að friða humarslóðina fyrir öðrum veiðarfærum. „Því það er ekki eingöngu veiddur humar á slóðinni. Það eru önnur togveiðafæri sem er í rauninni heimilt að fara þar yfir. Þannig að það er eitt sem verður skoðað og jafnvel líka mjög hófleg sókn eða jafnvel engin sókn.“

„Áfall ef við fengjum ekki að veiða neinn humar“

Humar er mjög þýðingarmikill þáttur í starfsemi þriggja sjávarútvegsfyrirtækja hér stóran hluta ársins. Þetta eru Rammi í Þorlákshöfn, Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum og Skinney-Þinganes á Hornafirði. Fyrir þau yrði veiðibann mikið áfall og hætta á að verðmætir erlendir markaðir myndu tapast. „Humarinn nær yfir 7-8 mánaða tímabíl í veiðum og vinnslu,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri hjá Vinnslustöðinni. „Fólk hefur atvinnu af þessu og humarinn er verðmæt afurð. Tekjurnar af honum skipta því verulegu máli. Það yrði áfall ef við fengjum ekki að veiða neinn humar.“

Talsverðar rannsóknir felist í veiðunum

En þó friðun sé sterk aðgerð segir Jónas ýmislegt annað hægt að gera. „Og með veiðum fáum við þó nokkrar upplýsingar líka um ástand stofnsins.“ Undir þetta tekur Sverrir og segir mikilvægt að hafa áfram yfirsýn yfir ástandið á humarmiðunum. „Í veiðum felast einnig rannsóknir því þannig safnast nauðsynleg gögn sem nýtast við rannsóknir á stofninum,“ segir hann. Og Jónas telur að rannsaka þurfi stofninn betur. „Og við þurfum aðeins að gefa í varðandi rannsóknir á humarstofninum og skilja betur nákvæmlega hvað er að gerast með stofninn,“ segir hann.

 

Deila: