Veður hamlar aðgerðum í Helguvík

Deila:

Eldsneyti var áfram dælt úr tönkum strandaða flutningaskipsins Fjordvik í Helguvík í nótt, við erfiðar veðuraðstæður. Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri í Reykjaneshöfn, segir í samtali á ruv.is að dælingu sé hætt í bili vegna veðurs en að nær allri olíu hafi verið náð úr þeim geymum sem menn hafa komist að. Talið er að um 20% af eldsneyti skipsins sé í öðrum tönkum og ætla menn að athuga hvort betra verður að komast að þeim á háfjöru um hádegisbilið í dag.

Einnig er beðið eftir meiri dælibúnaði sem kom til landsins með flugi í nótt. Sjór er í hluta skipsins og þarf að tæma hann til að meta magn innstreymis og átta sig á stærð vandans áður en hægt er að hreyfa skipið.

Töluverðar skemmdir hafa orðið á skipinu en enn er lögð áhersla á að ná því út. Staðan verður könnuð nánar á fjöru síðar í dag.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

 

Deila: