Landeldi á laxi gæti orðið 1,5 prósent heimsframleiðslunnar eftir fjögur ár

Deila:

Ætla má að heimsframleiðsla á laxi í landeldsstöðvum geti verið orðin um 50 þúsund tonn árið 2022. Heildarframleiðsla á laxi í heiminum á því ári er hins vegar áætluð um þrjár milljónir tonna. Hlutfall landeldisframleiðslu á laxi gæti því orðið um 1,5 prósent. Helstu áform um uppbyggingu landeldsstöðva eru helst  næst fjölmennustu markaðssvæðunum til að mynda í Bandaríkjunum.
Þetta er niðurstaða Pareto fjárfestingarbankans og byggist á skoðun á þeim landeldisstöðvum sem kunnugt er um og geta verið komnar í framleiðslu árið 2022. Þetta kemur fram á  heimasíðu Landssamtaka fiskeldisstöðva.
Óraunhæft tal
Þetta er athyglisvert í ljósi þess að oft er því haldið fram  í opinberri umræðu að einfalt sé að hætta allri framleiðslu á laxi í sjókvíum og flytja framleiðsluna upp á land. Marg oft hefur verið bent á hversu óraunhæft það tal er allt saman, en umræðan heldur samt áfram.
Framleiðsla landeldisstöðvanna mun á árinu einkanlega koma frá Bandaríkjunum, Noregi, Kína, Póllandi, Danmörku og Japan. Vitað er að ýmis landeldisverkefni eru á teikniborðinu, en bankinn bendir á að jafnvel þó áformin gangi eftir séu trauðla líkur á að þau verði orðin að veruleika á árinu 2022, nema þá að einhverjum hluta.
Torsótt fjármögnun og tæknileg vandamál
Fram hefur komið að víða gangi illa að fá fjármagn til landeldisframleiðslu á laxi til að mynda í Noregi. Pareto bankinn bendir á að hvergi hafi tekist að framleiða lax í landeldisstöðvum nema með ærnum tilkostnaði. Í vegi þeirra verði ýmis vandamál sem ekki hafi verið leyst þó vitaskuld hafi miðað í rétta átt. Auk þeirra atriða sem bankinn nefnir í þessu sambandi og hér hefur verið nefnt, er vakin athygli á að áhættan í framleiðslunni á síðustu stigum hennar aukist jafnan svo um munar, vegna margháttaðra líffræðilegra vandamála. Því hefur sums staðar verið mætt með því að slátra fiskinum fyrr í framleiðsluferlinu, sem lækkar þar með væntar heildartekjur fyrirtækjanna.

Margfaldur kostnaðarmunur á landeldi og sjóeldi

Regin Jacobsen, forstjóri stærsta laxeldisfyrirtækis Færeyja hefur bent á að,  “það kostar okkur 700 milljónir danskra króna ( um 13 milljarðar íslenskar krónur) að rækta 30.000 rúmmetra á landi. Í sjókvíeldi kostar samsvarandi ræktun okkur 3 milljónir danskra króna, ( um 57 milljónir íslenskar krónur) . Kostnaðarmunur er í þessu dæmi því margfaldur. Hann bendir á  þá þróun sem á sér stað í laxeldi sem gengur út á að lágmarka ræktunartíma í sjó með því að setja út stærri seiði til skemmri tíma.

Sjá: http://www.fiskeldisbladid.is/2018/06/05/sjokvieldi-betra-en-landeldi/?fbclid=IwAR3ux0Fv3mRul_BjsNgO-Z4HxiMJk5JWYlv-0lZ0kYBfZQQep6bCBqBHfqc
Landeldisframleiðsla byggist fyrst og fremst upp næst fjölmennu markðassvæðunum
Þetta og ýmsilegt fleira veldur því, eins og bankinn bendir á, að helstu áformin við uppbyggingu landeldis séu á svæðum sem eru næst fjölmennustu markaðssvæðunum. Með því má draga úr flutningskostnaði til þess að vinna gegn því rekstrarlega óhagræði sem landeldisframaleiðslunni fylgir. Má í því sambandi nefna að hinar stóru bandarísku landeldisstöðvar, annars vegar á vegum Atlantis Sapphire í Miami í Flórída og Nordic Aquafarm í Main fylki verða komnar til sögunnar að einhverju leyti amk árið 2022.

 

Deila: