Síðasta löndun Vilhelms á Íslandi

Deila:

Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með 570 tonn af frosinni norsk-íslenskri síld. Þetta er síðasta veiðiferð skipsins á síldarvertíðinni en það hefur fiskað tæplega 9.000 tonn af norsk-íslenskri síld frá því að veiðar á henni hófust 22. september sl. Löndun Vilhelms Þorsteinssonar í Neskaupstað í gær var lokalöndun skipsins á Íslandi en það hefur verið selt til Rússlands. Vilhelm kom nýr til landsins árið 2000 þannig að Samherji hefur gert skipið út í 18 ár.

Það fer ekkert á milli mála að menn munu sakna Vilhelms Þorsteinssonar og í tilefni af  tímamótunum var Guðmundur Jónsson skipstjóri tekinn tali. „Það er erfitt að kveðja skip eins og Vilhelm. Þetta er í einu orði sagt frábært skip sem hefur reynst bæði útgerð og áhöfn afar vel. En það kemur nýr Vilhelm árið 2020 og það verður glæsilegt skip. Það verður hins vegar ekki vinnsluskip þannig að breytingin verður mikil,“ segir Guðmundur í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi er búið að fiska um 968 þúsund tonn á Vilhelm frá því að byrjað var að gera skipið út og landanir þess eru um 820 talsins. Meðalafli skipsins á  ári er 53 þúsund tonn og verðmæti heildaraflans á núvirði gæti verið um 60 milljarðar króna. Alls hefur skipið fiskað 110 þúsund tonn af íslenskri sumargotssíld, 220 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld, 100 þúsund tonn af makríl, 323 þúsund tonn af loðnu, 210 þúsund tonn af kolmunna og um fjögur þúsund tonn af öðrum tegundum, þar á meðal karfa og grálúðu.

Guðmundur Jónsson skipstjóri.

Um þessar staðreyndir segir Guðmundur eftirfarandi: „Það hefur aflast ótrúlega vel á skipið frá upphafi. Útgerðin hefur svo sannarlega staðið sig hvað varðar útvegun á kvóta og áhöfnin hefur alla tíð verið frábær. Ég held að fimm eða sex úr áhöfninni hafi verið á skipinu frá upphafi.“

Það er alveg ljóst að Norðfirðingar eiga eftir að sakna Vilhelms Þorsteinssonar mjög. Skipið hefur landað mestu af afla sínum í Neskaupstað og þar er nánast litið á Vilhelm sem eitt af heimaskipunum. Fyrir utan landanir í Neskaupstað hefur Vilhelm landað töluverðum afla í verksmiðjur Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Helguvík.

Guðmundur Jónsson segir að samstarfið við Síldarvinnsluna hafi alla tíð gengið vel. „Síldarvinnslan er traust fyrirtæki sem gott er að hafa samskipi við að öllu leyti. Það hefur líka verið afar hagstætt fyrir okkur að eiga Neskaupstað sem nokkurs konar heimahöfn enda liggur staðurinn vel við þeim miðum sem uppsjávartegundir eru sóttar á,“ segir Guðmundur.

Fyrstu skipstjórar á Vilhelm Þorsteinssyni voru Arngrímur Brynjólfsson og Sturla Einarsson. Guðmundur tók síðan við af Sturlu árið 2001 og hefur verið á skipinu síðan að undanskildum tæplega tveimur árum þegar hann var á Baldvin Þorsteinssyni EA. Birkir Hreinsson tók síðan við af Arngrími árið 2006.
Myndir Hákon Ernuson.

 

Deila: