Mar Wear í vaxandi sókn á íslenskum markaði

Deila:

Fyrirtækið Mar Wear flutti nýlega höfuðstöðvar sínar frá Grindavík að Skarfabakka 4 í Reykjavík. Það gerðist í kjölfar kaupa Hampiðjunnar á meirihluta í félaginu Voot Beita ehf., eiganda Mar Wear, en undir nafni þess síðarnefnda er framleiddur samnefndur sjó- og fiskvinnslufatnaður auk þess sem Mar Wear selur vörur frá samstarfsaðilum erlendis. Fyrirtækið hefur verið í mikilli og vaxandi sókn á íslenska markaðnum og framkvæmdastjórinn, Þorsteinn Finnbogason, segir í samtali á heimasíðu Hampiðjunnar enn vera mikil tækifæri til að gera betur.

„Það sem við leggjum helstu áherslu á núna, er að kynna nýja vörumerkið okkar, Mar Wear. Við framleiðum m.a. vettlinga og sjó- og vinnslufatnað en þar fyrir utan erum við með gott úrval af stígvélum. Þetta er heildarlausn í fatnaði, fyrir bæði skip og vinnslur, sem segja má að sé sérhannaður fyrir íslenskar aðstæður. Við hefðum aldrei náð þessum árangri nema með því að fá góðar ábendingar frá fólkinu sem notar fötin,“ segir Þorsteinn en allur sjó- og vinnslufatnaður og kuldagallar Mar Wear eru framleiddir í Evrópu en einnota vörurnar eru framleiddar í Kína.
,,Við höfum heimsótt verksmiðjurnar, sem framleiða fyrir okkur, og fylgst með framleiðslunni og þetta eru einhverjar fullkomnustu verksmiðjur sinnar tegundar í Evrópu. Við fylgjumst náið með framleiðslunni á hverjum stað og mikil áhersla er lögð á stöðuga vöruþróun og nýjungar. Það er okkur mikils virði að geta leitað til okkar kaupenda sem eru kröfuharðir hvað varðar gæði fatnaðarins og fengið hjá þeim ráð um það sem betur má fara.“

Fislétt öryggisstígvél
Að sögn Þorsteins er Mar Wear nú komið í samstarf við fyrirtæki, sem hefur framleitt frábær stígvél mörg undanfarin ár.
,,Við vorum þeir fyrstu sem komnu með þessi stígvél í sölu hérlendis. Þau eru gerð úr sérstöku efni sem kallast EVA en það er svipað og efnið sem notað er í hina þekktu Croc´s skó. Stígvélin eru fislétt, þrátt fyrir að þau séu með stáltá, og kevlarplötu í sóla. Við bjóðum einnig sömu stígvél án stáltár og þess utan erum við með sambærilegar vörur úr sama efni. Þessi stígvél fara betur með fólk sem þarf að standa lengi, og svo eru þau auðveld í þrifum. Öllum þessum stígvélum fylgir thermo sokkur. Þá má nefna að við erum einnig komnir með frægu, frönsku stígvélin frá framleiðandanum Le Chameau til sölu.

Mar Wear selur vörur sínar um allt land. Fyrirtækið er, sem fyrr segir, með höfuðstöðvar sínar að Skarfagörðum 4 í Reykjavík en starfsstöðvarnar eru alls sex talsins. Þorsteinn segist vonast til að Mar Wear verði á fleiri stöðum í framtíðinni.

,,Við höfum mikinn hug á því að selja meira af vörum í netverslun Mar Wear. Vöruúrvalið hefur aukist mikið og viðtökur hafa verið góðar. Nánar er hægt að kynna sér vöruúrvalið í nýja vörulistanum okkar  á heimasíðu Mar Wear, marwear.is/vorulisti,“ segir Þorsteinn Finnbogason.

 

 

Deila: