Allar tillögur stjórnar Marel samþykktar
Hluthafafundur Marel hf. var haldinn fimmtudaginn 22. nóvember 2018 í höfuðstöðvum félagsins að Austurhrauni 9, 210 Garðabæ. Tillögur stjórnar til fundarins um lækkun hlutafjár og heimild fyrirtækisins til kaupa á eigin hlutafréfum voru samþykktar. Stjórnarformaður félagsins, Ásthildur Otharsdóttir ávarpaði fundinn fyrir hönd stjórnar.
Allar tillögur stjórnar til hluthafafundarfundar voru samþykktar. Tvær tillögur voru á dagskrá fundarins, þ.e. tillaga um lækkun á eigin hlutum félagsins vegna undirbúnings mögulegrar tvíhliða skráningar félagsins, til hagsbóta fyrir hluthafa, og eins tillaga um heimild til stjórnar félagsins til þess að setja upp formlega endurkaupaáætlun. Engin önnur mál voru borin upp á dagskrá fundarins.
Samþykktir
Hluthafafundur samþykkti að lækka hlutafé félagsins um 52.983.076 kr., úr 735.568.997 kr. í 682.585.921 kr. að nafnverði. Lækkunin verður framkvæmd með lækkun á eigin hlutum félagsins sem nema framangreindri fjárhæð, að uppfylltum skilyrðum laga um hlutafélög.
Samþykkt var að breyta grein 2.1. í samþykktum félagsins og er hún nú svohljóðandi: „Hlutafé félagsins er kr. 682.585.921.“.
Endurkaupaáætlun
Hluthafafundur samþykkti tillögu um heimild til stjórnar félagsins til að kaupa eigin hluti í félaginu með framkvæmd endurkaupaáætlunar, í skilningi laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. ákvæði viðauka við reglugerð nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik. Fjöldi hluta sem keyptur skal samkvæmt endurkaupaáætluninni verður að hámarki 34.129.296 hlutir, en það jafngildir 5% af útgefnu hlutafé félagsins.
Vefur hluthafafundar
Allar frekari upplýsingar og gögn tengd hluthafafundinum má nálgast á vef félagsins: marel.com/hluthafafundur.