Komnir með 150 tonn á nýjan Indriða Kristins

Deila:

„Við erum að fínpússa smá hluti sem ekki sást fyrir í upphafi. Við fórum í prufutúr í byrjun mánaðarins. Fórum vestur og höfum mest verið að berjast við brælur framan af mánuði en núna erum við búnir að fá góða viku í að redda mánuðinum. Þetta er mest þorskur en aðeins litað af ýsu, samtals um 150 tonn,“ segir Magnús Guðjónsson, skipstjóri á línubeitningarbátnum Indriða Kristins í samtali við Kvótann.

Þetta er nýr bátur, sem leysir af hólmi eldri bát með sama nafni. „Þessi bátur er um það bil metra lengri og metra breiðari en gamli báturinn og það vigtar dálítið mikið. Þessi er 30 tonn enn hinn var 22 tonn. Þetta er töluverð stækkun. Hann tekur 40 660 lítra kör í lest og við höfum bara verið að miða við að vera ekkert að setja meira en það í hann. Fiskurinn fer fyrst í gegnum blóðgunarsnigil, síðan kælisnigil áður en hann fer niður í lest og þar „kröpum“ við hann. Við erum svona að stefna að því að fara betur með fiskinn, átta okkur á því að það sé árið 2018. Helsta breytingin frá gamla bátnum er betri meðferð á afla, aðbúnaði fyrir mannskap og aukin burðargeta,“ segir Magnús.

„Við höldum okkur fyrir vestan en förum suður, þegar loðnan kemur vestur. Þá hættir þorskurinn að taka krókinn og við færum okkur suður til að veiða þorskinn. Við höfum svo engan sérstakan áhuga á því að fara á steinbít og vorin. Verðið er venjulega lélegt.“

Útgerðin er í samstarfi við Kamb í Hafnarfirði, sem vinnur fiskinn af bátnum.

„Það eru góð viðbrigði að vera kominn með nýjan bát. Maður er svona að kynnast honum ennþá. Hann reyndist fínt í brælunni. Manni finnst maður vera öruggari heldur en á þessum gamla. En það er reyndar þannig með alla báta sem ég hef byrjað með, að meðan ég er að kynnast þeim, er maður alltaf á varðbergi og sefur ekki eins vel og þegar maður farinn að þekkja bátinn betur.

Við erum með sömu áhöfn og á gamla bátnum og sama kerfið. Viðskiptum skipstjórninni á milli okkar bræðranna, ég og Indriði.  Það eru 6 í áhöfninni og alltaf tveir í fríi. Það er mjög fjölskylduvænt að eiga skipulögð frí,“ segir Magnús Guðjónsson.

Deila: