Kvótakerfið forsenda árangurs í sjávarútvegi

Deila:

Níundi áratugur síðustu aldar byrjaði nokkuð vel. Afli var mikill og náði hámarki árið 1981 í 461.000 tonnum. Hvorki fyrr né síðar hafa Íslendingar dregið svo mikið af þorski á land. Þrátt fyrir þennan mikla afla voru blikur á lofti. Afkoma fiskveiðiflotans var afleit þrátt fyrir mikinn afla. Allt of hröð skuttogaravæðing er að sliga margar útgerðir og skipin eru allt og mörg. Ofan á þetta kom kolsvört skýrsla frá Hafrannsóknastofnun; skera þurfi þorskveiðiheimildir niður um helming. Við þessar aðstæður verður mikil umræða um fiskveiðistjórnun og menn byrja að nefna aflahlutdeildarkerfi, betur þekkt sem kvótakerfið í dag. Kvótinn fer hér yfir gang mála með Kristjáni Ragnarssyni, fyrrum formanni og framkvæmdastjóra LÍÚ.

„Ég tel það tvímælalaust verið mitt gæfuspor að hafa tekið þessa afstöðu og að hafa fylgt henni eftir. Það hefur ekki bara verið sjávarútveginum til góðs heldur öllu þjóðfélaginu,“ segir Kristján Ragnarsson, fyrrum formaður og framkvæmdastjóri LÍÚ, um kvótakerfið. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Svört skýrsla Hafró

„Það kom rosalega slæm skýrsla frá Hafrannsóknastofnun 1983 um að það þurfi að skera aflann gríðarlega mikið niður ef við ætlum ekki að missa stjórn á veiðum úr þorskstofninum. Þá er strax farið að tala um að leggja þurfi öðru hverju skipi. Menn gátu í raun ekki hugsað sér hvernig hægt væri að mæta því í hverju einstöku þorpi. Þá var samþykkt á aðalfundi LÍÚ, sem haldinn var á Akureyri um haustið 1983 að kanna hver vilji manna gæti verið til þess að taka upp kvótakerfi, sem hafði verið aðeins í umræðunni. Ég hafði verið á móti því. Mér fannst það vera svo mikil svipting á frelsi einstaklingsins að geta ekki sótt sjóinn eins og þeir voru vanir. Að sá væri mestur sem mestan afla bæri á land. Maður var alinn upp við þessar aðstæður,“ segir Kristján.

Framvindan er hröð þetta haustið enda lítill tími til stefnu. Ákveða þurfti fiskistjórn næsta árs í tíma. Kristján Ragnarsson fékk símtal sem hrinti af stað mikilli atburðarás: „Upp úr fundinum á Akureyri hringdi Magnús Gústafsson, forstjóri Hampiðjunnar í mig, sagði mér að hann ætti erindi til Kanadag og spurði hvort ég væri til í að slást í för með honum til að kynna mér kvótakerfi sem Kanadamenn notuðust við. Ég þakkaði fyrir gott boð og við fórum vestur um haf. Magnús hafði góðan aðgang að öllum helstu aðilum í sjávarútveginum, bæði í Halifax í Nova Scotia og á Nýfundnalandi. Þarna fékk ég að kynnast hvernig kvótakerfið var í framkvæmd hjá þeim en þar var aflaheimildum úthlutað á fyrirtækin, sem síðna gátu lagað sjósókn að veiðiheimildum sínum. Þeir misstu reyndar síðar tökin á þessu síðar.“

 

Ekki hlusta á skipstjórana!

Kristján rifjar upp að Brian Tobin, sem þá var sjávarútvegsráðherra Nýfundnalands og síðar alls Kanada, hafi komið til Íslands og haldið erindi um fiskveiðistjórnun á vegum LÍÚ. Hann sagði að við fiskveiðistjórnun ætti aldrei að hlusta á skipstjórana. Þeir þekktu straumaskilin þar sem þorskurinn héldi sig. Þeir færu bara á þá staði sem þeir vissu að fiskurinn væri og héldu að allt hafið væri eins og á þessum straumaskilum. Þannig hafi Kanadamenn kollsteypt sinni fiskveiðistjórn. Þeir hafi verið búnir að áætla að þeir gætu veitt milljón tonn af þorski á ári en þorskstofninn við Nýfundnaland hrundi síðan vegna ofveiði og áratuga veiðibann tók gildi 1992.

Boðskapinn um kvótakerfi flutti Kristján þegar heim kom, að þetta væri gott kerfi og einhvern veginn yrði að mæta þessum gríðarlegu erfiðleikum sem sjávarútvegurinn og þjóðin öll stæði frammi fyrir. Nauðsynlegt væri að setja upp einhvers konar kvótakerfi, þar sem aflanum væri aflanum úthlutað á skip en ekki á fyrirtæki eins og í Kanada. Þannig gætu menn hagrætt í útgerðinni. „Ég lagði alltaf áherslu á að það væri úthlutað á skip, en vinir mínir í Sölumiðstöðinni vildu að fiskvinnslan fengi heimildirnar. Það fannst mér ósanngjarnt vegna þess að aflareynslan væri fengin á skip af tilteknum útgerðum og áhöfnum,“ segir Kristján.

 

Prédikaði skoðun mína

„Þegar ég kem heim með þennan boðskap var Fiskiþing að hefjast, sem ég reyndar taldi  aldrei merkilega stofnun. Þar prédikaði ég þá skoðun mína að þessum fyrirsjáanlega niðurskurði á þorskveiðiheimildum yrði best mætt með einhverskonar kvótakerfi. Minn  dyggasti stuðningsmaður þar voru Eyjólfur Ísfeld Eyjólfsson, sem þá var forstjóri Sölumiðstöðvarinnar, Hilmar Bjarnason á Eskifirði og Hallgrímur Jónasson á Reyðarfirði og fleiri.“

Fiskiþing samþykkti svo að leggja til að veiðum verði stjórnað með kvótakerfi til eins árs til reynslu. Alþingi samþykkti í kjölfarið lög til eins árs sem heimiluðu sjávarútvegsráðherra að stjórna veiðunum með þessum hætti.

„Ég var einn af þeim sem var þess fullviss að þetta yrði ekki framtíðarskipan heldur aðeins til reynslu í eitt ár. Svo kæmu betri tímar og þá mætti endurskoða þetta. Reynslan varð svo sú, að menn sáu að þetta var skynsamleg aðferð, þó margir væru þessu mjög andvígir. Ég lagði hausinn að veði með því að tala fyrir þessu kerfi og ferðaðist út um land til að kynna það. Ég mætti eðlilega mjög misjöfnum undirtektum, oft mjög öfgafullum á hinn veginn.“

 

Sóknarmark um tíma

Þessa niðurstöðu þurfti að kaupa með nokkru verði, sem var sóknarkerfi samhliða kvótakerfinu með ákveðnum takmörkunum á veiðum. Þetta þróast svo þannig frá 1984 til 1990 að sóknarmarkið var lagt niður án nokkurrar andstöðu og veiðunum eftir það stjórnað með kvótakerfi með framseljanlegum veiðiheimildum. Framsalið var forsenda þess að kvótakerfið virkaði og skilaði þeim árangri sem eftir var sóst. Hægt var að færa saman veiðiheimildir og spara í útgerðarkostnaðinum.

„Það var svolítið gaman að því að þegar tekist var á um framsalið 1990 var við völd hreinræktuð vinstri stjórn sem samþykkti framsalið án teljandi takmarkana. Ég get bara ekki hugsað þá hugsun til enda hefðum við haldið áfram samkeppninni um að byggja stærri og stærri skip og sækja á þeim færri og færri fiska og valda þjóðinni áframhaldandi skaða með minni tekjum af auðlindinni, en hún gat og hefur haft,“ segir Kristján.

 

Kvótakerfið forsenda árangurs

Kvótakerfið er að mati Kristjáns forsenda þess árangurs sem síðar hefur náðst í að sníða veiðarnar að afrakstri fiskistofnanna og  samtvinna veiðar og vinnslu. Þannig hafi náðst að hámarka arð úr hvorttveggja.

„Ég tel það tvímælalaust hafa verið mitt gæfuspor að hafa tekið þessa afstöðu og að hafa fylgt henni eftir. Það hefur ekki bara verið sjávarútveginum til góðs heldur öllu þjóðfélaginu með hliðsjón af því hvernig til hefur tekist í því að gera útgerðina hagkvæmari munandi allar þær gengisfellingar sem fylgdu rekstrarerfiðleikum útgerðarinnar fyrir tíma kvótakerfisins. Þær voru óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að eytt hafði verið fyrirfram með því að hækka laun alltof mikið. Þau þurfti því að skerða aftur með gengisbreytingum. Sem betur fer náðist mikil þjóðarsátt á svipuðum tíma og framsalið var gefið frjálst og hvort tveggja fyrir sig, þjóðarsáttin og kvótakerfi með frjálsu framsali, leiddi til meiri stöðugleika í íslensku efnahagslífi en áður hafði þekkst,“ segir Kristján Ragnarsson.

En það var fleira sem Kristján fékkst við á langri og farsælli starfsævi sinni hjá LÍÚ. Hann réðst til LÍÚ í mars 1958 og lét þar af störfum árið 2003. Hann var framkvæmdastjóri sambandsins frá 1969 til 1999 og formaður frá 1970 til 2003.  Svo þekktur var hann úr sjónvarpi og blöðum, að segja má að hann hafi á tímabili verið orðinn „heimilisvinur“ íslensku þjóðarinnar.

Fyrsta starf hans hjá LÍÚ var að hringja á síldarleitarstöðvarnar þrjár til að fá upp afla síldarskipanna sólarhringinn áður. Þær upplýsingar voru síðan aðgengilega á skrifstofunni. Á þessum árum var mikil mannekla í íslenskum sjávarútveg og komu hundruð Færeyinga hingað til að vinna við sjávarútveginn og hafði Kristján milligöngu um komu þeirra og sá um millifærslu launa þeirra, sem þá var ýmsum skilyrðum háð.

 

Kjarasamningar og fleira

Þá urðu kjarasamningar eitt af helstu viðfangsefnum Kristjáns. Voru það oft á tímum miklar vökur. „Sem dæmi um þetta má nefna að fyrstu 7 næturnar eftir að við Kristín giftum okkur 7. janúar 1961 kom ég ekki heim fyrir klukkan 7 að morgni. Þá var svona mikil samningatörn í gangi og Torfi Hjartarson, ríkissáttasemjari hlífði okkur í engu með tíma,“ segir Kristján. Og heldur áfram: „Manni fannst sjómannaforystan svolítið höfuðlaus her á þessum árum. Þó voru þar innanum  miklir persónuleikar á þessum árum sem mig langar til að nefna, en það eru Óskar Vigfússon,Tryggvi Helgason frá Akureyri og Jón Sigurðsson, sem kallaður var dreki og. Síðan kom til skjalanna Ingólfur Ingólfsson, sem var þá formaður Vélstjórafélagsins og síðar formaður Framanna- og fiskimannasambandsins. Mikill ágætismaður.

Það var mikið ábyrgðarhlutverk að standa í þessum samningaviðræðum og það sem mér þótti verst, sérstaklega eftir að ég var orðinn formaður, að ég væri ábyrgur fyrir því að yrði verkfall og allur flotinn bundinn í höfn. Það voru mínir erfiðustu dagar í þessu starfi, þessi alltof tíðu verkfallsátök, sem voru.“

Kristján var kjörinn formaður LÍÚ á aðalfundi í Vestmannaeyjum 1979, nokkuð óvænt en Þorsteinn Gíslason var þá kandídat forystunnar og aðrir höfðu ekki verið nefndir til sögunnar. „Málin æxluðust svo þannig að ég var sjálfkjörinn formaður án mótframboðs og gegndi þeirri stöðu samfleytt í 33 ár,“ segir Kristján Ragnarsson.

Gekk út og lokaði á eftir sér

Kristján fékk aldrei mótframboð í formennskutíð sinni en: „Einu sinni kom maður inn á skrifstofuna til mín. Settist fyrir framan mig, Guðmundur Kristjánsson, kenndur við Brim og sagðist ætla að bjóða sig fram gegn mér. Hann ætlaði að sækjast eftir því að verða formaður LÍÚ. Það kom svolítið á mig, en ég sagði við hann að ég fagnaði þessu mikið. Ég hefði verið sjálfkjörinn öll þessi ár, sem ekki voru þá orðin 33. Nú fengi ég loksins hugmynd um hvar ég stæði vegna þess að ég hefði aldrei fengið mótframboð. Ég hefði því aldrei vitað hvert bakland mitt væri. Ég þakkaði honum innilega fyrir því nú fengi ég mælikvarða á stöðu mína og hann gerði mér því mikinn greiða með að bjóða sig fram á móti mér, því ég ætlaði að gefa kost á mér til áframhaldandi formennsku. Því kæmi bara í ljós í kosningu okkar á milli hver framvindan yrði. Hann stóð upp úr stólum, gekk út af skrifstofunni og lokaði hurðinni á eftir sér og ég heyrði aldrei í honum meira um þessi mál. Þetta er því svolítið eftirminnilegt en Guðmundur er góður vinur minn í dag og hefur alla tíð verið.“

Kristján varð áttræður s.l. sumar. Hann hélt upp á afmælið á æskuheimili sínu á Flateyri ásamt stórfjölskyldunni. Húsið sem stendur við Hafnarstræti 1 hefur verið gert  upp á mjög smekklegan hátt. Húsið var byggt árið 1902 af bróður ömmu Kristjáns. Hann segir það hafi verið mjög ánægjulegt að ganga inn í húsið, sem hann yfirgaf fyrir 64 árum þá 16 ára gamall.

Eiginkona Kristjáns, Kristín Möller, andaðist fyrir 4 árum.

Viðtal þetta birtist fyrst í nýútkomnum Ægi, sem helgaður var 100 ára fullveldi Ísands. Auk þess að vera í áskrift var blaðinu dreift á staði tengda sjávarútvegi um allt land.

Myndir og texti Hjörtur Gíslason

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila: