Endurkaup Marel á eigin bréfum að hefjast
Hluthafafundur Marel hf. þann 22. nóvember 2018 veitti stjórn Marel hf. heimild til að kaupa eigin hluti í félaginu með framkvæmd endurkaupaáætlunar í skilningi laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. ákvæði viðauka við reglugerð nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik. Tilgangur endurkaupaáætlunarinnar er tvíþættur; að lækka hlutafé félagsins og að standa við skuldbindingar sem leiða af kaupréttarsamningum við starfsmenn félagsins. Fjöldi hluta sem keyptur skal samkvæmt endurkaupaáætluninni verður að hámarki 34.129.296 hlutir sem jafngildir 5% af útgefnu hlutafé félagsins.
Stjórn Marel hf. hefur á grundvelli framangreindrar heimildar tekið ákvörðun um að skipta endurkaupaáætluninni í tvo hluta og að hrinda í framkvæmd fyrri hluta endurkaupaáætlunar um kaup á eigin bréfum. Hámarksfjöldi hluta sem áætlunin kveður á um að verði keyptir á tímabilinu 4. desember 2018 til og með 5. mars 2019 eru að nafnvirði 17.305.940, sem jafngildir um 2,5% af útgefnu hlutafé félagsins. Fyrir á félagið 6.690.550 eigin bréf eða 0,98% af útgefnu hlutafé í félaginu.
Endurkaupin verða framkvæmd af Landsbankanum sem tekur allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna óháð félaginu. Framkvæmd endurkaupaáætlunar verður í samræmi við lög um hlutafélög nr. 2/1995 og viðauka við reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005. Endurgjald fyrir keypta hluti skal ekki vera hærra en sem nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í Kauphöll Íslands, hvort sem er hærra. Kaup samkvæmt endurkaupaáætluninni verða framkvæmd í áföngum, þó þannig að kaup hvers dags munu að hámarki nema hlutum sem samsvara 25% af meðaltali daglegra viðskipta með hlutabréf félagsins í Kauphöll Íslands í nóvember 2018, eða 283.704 hlutum á dag. Viðskipti félagsins með eigin hluti á grundvelli endurkaupaáætlunarinnar verða tilkynnt eigi síðar en við lok sjöunda viðskiptadags eftir að viðskiptin fara fram.