Færeyjar og Grænland semja um gagnkvæmar veiðiheimildir

Deila:

Færeyjar og Grænland hafa undirritað fiskveiðisamning milli þjóðanna fyrir næsta ár. Í samningnum felst að gagnkvæmar heimildir lækka nokkuð.

Fiskifræðingar hafa lagt til að þorskkvótinn við Austur-Grænland lækki verulega frá þessu ári og einnig er samkomulag milli þjóðanna um að lækka veiðiheimildir í kolmunna. Samkvæmt því verður færeyskum fiskiskipum heimilt að veiða 1.325 tonn af þorski og 475 tonn af keilu innan lögsögu Grænlands. Það er lækkun á þorskkvótanum um 100 tonn frá þessu ári. Kvóti á grálúðu verður áfram 325 tonn. Þá halda Færeyingar 500 tonna tilraunakvóta á krabba við Austur-Grænland. Færeyingar hafa áfram heimildir til veiða á 100 tonnum af grálúðu við Vestur-Grænland.

Heimildir Grænlendinga til veiða á kolmunna innan lögsögu Færeyja verða lækkaðar um 2.500 tonn og fara niður í 13.500 tonn. Auk þess hafa Grænlendingar heimildir til að veiða 6.200 tonna kvóta sem þeim er úthlutaður af NEAFC innan lögsögu Færeyja. Einnig mega Grænlensk skip veiða 3.200 tonn af norsk-íslenskri síld við Færeyjar. Það er aukning um 700 tonn miðað við þetta ár.

Deila: