Færeyjar og Rússland semja um fiskveiðar

Deila:

Færeyjar og Rússland hafa undirritað samningum um gagnkvæmar fiskveiðar. Þemað í samningnum er eins og áður að Færeyingar láta Rússa fá veiðiheimildir í uppsjávarfiski innan lögsögu Færeyja og Færeyingar fá í staðinn heimildir til veiða á botnfiski og rækju innan rússnesku lögsögunnar.

Fiskifræðingar leggja til að botnfiskveiðar í Barentshafinu verði minnkaðar. Norðmenn og Rússar hafa komist að samkomulagi um að fara að þeim tillögum upp að vissu marki og verður því heildarveiðin skert nokkuð. Þorskvóti Færeyinga í Barentshafi á næsta ári verður 15.690 tonn og ýsukvótinn 1.569, eða 10% af þorskkvótanum. Samtals dragast þessar heimildir saman um 6,6%. Heimildir til veiða á flatfiski verða óbreyttar í 900 tonnum.  Rækjukvóti Færeyinga á næsta ári verður óbreyttur í 5.000 tonnum, þrátt fyrir útlit fyrir samdrátt.

Rússar fá heimildir til veiða á 81.000 tonnum af kolmunna innan lögsögu Færeyja og er það óbreytt magn frá þessu ári. Heimildir þeirra í Norsk-íslenskri síld og makríl verða á hinn boginn skertar nokkuð. Makrílkvóti þeirra verður nú 12.500 tonn og heimildir til meðafla í síld lækka niður í 8.555 tonn. Þá hafa Rússar heimildir til tilraunaveiða á djúpsjávarfiski upp á 500 tonn innan færeysku lögsögunnar.

Rússar fá einnig leyfi til að taka fjórðung að kolmunnakvótanum sem Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin hefur úthlutað þeim á alþjóðlegu svæði innan lögsögu Færeyja. Það eru um 21.000 tonn.

 

Deila: