Skiplagsstofnun fellst á 5.000 tonna strandeldi í Þorlákshöfn

Deila:

Skipulagsstofnun farið yfir framlagða tillögu Landeldis ehf. að matsáætlun vegna strandeldis á 5.000 tonnum af laxfiskum ásamt þeim umsögnum sem borist hafa stofnuninni og viðbrögðum framkvæmdaraðila við þeim. Skipulagsstofnun fellst á tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun með ákveðnum athugasemdum.

Í tillögu að matsáætlun kemur fram að heildarframleiðslugeta stöðvarinnar, þegar fullum afköstum verður náð, verði 5.000 tonn af slægðum afurðum árlega (slægður fiskur með haus) og þá muni hámarkslífmassi stöðvarinnar nema um 2.500 tonnum. Fram kemur að eldi seiða, sem ekki standist lágmarksstærð sem sett hafi verið fyrir þauleldissvæði, verði í eldishúsi.

Í umsögn Matvælastofnunar kemur fram að stofnunin gefi út rekstrarleyfi þar sem fram komi framleiðslumagn og hámarkslífmassi leyfisins. Framleiðslumagn í rekstrarleyfi sé skilgreint á eftirfarandi veg í reglugerð 1170/2015 um fiskeldi: „Framleiðslumagn miðast við ársframleiðslu slátraðra tonna af óslægðum eldisfiski úr keri/kví. Ársframleiðsla miðast við almanaksár.“ Stofnunin gerir kröfu um að Landeldi ehf. setji fram framleiðslumagn í frummatsskýrslu sem sé í samræmi við reglugerðina.

Þá óskar Matvælastofnun þess að framkvæmdaraðili taki tillit til og geri grein fyrir þeim atriðum sem koma við sögu, svo hámarka megi velferð fiska á öllum stigum eldisins. Í umsögn Umhverfisstofnunar er bent á að mikilvægt sé að gerð sé grein fyrir hvernig rekstraraðili hyggist ná 5.000 tonna framleiðslu á ári á sama tíma og hámarkslífmassi verði 2.500 tonn. Þá segir að gera þurfi betur grein fyrir þeim stærðarkröfum sem verið sé að vitna til varðandi lágmarksstærð seiða á þauleldissvæðum og hvort seiði í eldishúsi teljist ekki til lífmassa þessarar framkvæmdar. Auk þess bendir Umhverfisstofnun á að fjalla þurfi um hvernig nýta skuli bestu aðgengilegu tækni við reksturinn og að æskilegt sé að fjalla um þá umhverfisvottun sem rekstraraðili sækist eftir.

Í svörum framkvæmdaraðila kemur fram að í frummatsskýrslu verð framleiðslumagn skilgreint samkvæmt reglugerð 1170/2015 um fiskeldi og að í frummatsskýrslu verði kafli tengdur velferð fisks. Í svörum Landeldis ehf. er tekið undir ábendingu Umhverfisstofnunar.

Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir framleiðslumagni samkvæmt reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi. Þá þarf að gera grein fyrir hvernig rekstraraðili hyggst ná 5.000 tonna framleiðslu á ári en vera jafnframt undir 2.500 tonna hámarkslífmassa, sbr. umsögn Umhverfisstofnunar. Jafnframt þarf að gera grein fyrir stærð seiða í fyrirhuguðu eldishúsi og hvort þau seiði teljist ekki til lífmassa framkvæmdarinnar. Í frummatsskýrslu þarf að fjalla um hvernig framkvæmdaraðili hyggst nýta bestu aðgengilegu tækni við reksturinn og gera grein fyrir hvernig framkvæmdaraðili hyggst hámarka velferð fisks á öllum stigum eldisins.

Deila: